Pasta Valfredo

Pasta Valfredo

Bæði pastaréttir og rjómasósur hafa á sér slæmt orð um þessar mundir, en það eru til margar heilnæmar og ljúffengar útgáfur af hvoru tveggja.

Einstöku sinnum finnst mér gott að fá mér rjómakenndan pastarétt, en slæ þó hvergi af kröfum um næringu eða bragðgæði. Til er margs konar pasta og ég kaupi aldrei annað en lífrænt heilkornapasta sem gefur líkamanum trefjar og næringu ásamt auðnýtanlegri orku. Pasta er ódýrt og upplagt sem fylling og bragðbætir í ýmiss konar rétti, til dæmis þegar kemur að hinni óumflýjanlegu og reglubundnu ísskápstiltekt þar sem grænmetið er yfirfarið og slappari hlutar þess nýttir í kvöldmatinn.

Hér er þó dálítið meiri lúxusútgáfa innblásin af hinu sívinsæla en (yfirleitt) óholla Pasta Alfredo. Hér eru aðeins notuð næringarrík hráefni úr jurtaríkinu en blandað saman í það sem mætti halda að væri ómótstæðilega óholl máltíð út frá bragðinu einu saman. Það er enginn skortur á V-alfredo sósuuppskriftum á netinu, en hér er mín aðlögun og samsuða úr fjölda hugmynda. Uppskriftin dugar fyrir u.þ.b. fjóra.

Gleymdu öllu sem þér hefur verið sagt um ókosti þess að borða pasta – prófaðu þennan rétt og ég er viss um að þú munt skynja það á líkama og sál hversu nærandi þessi samsetning er. Ekkert óhollt – bara nærandi og ljúffengt!

Hráefni

 • 500 gr heilkornapasta
 • 150 gr kasjúhnetur
 • 3 hvítlauksgeirar
 • 1 dl möndlumjólk
 • 3 msk næringarger
 • 1 tsk laukduft
 • Safi úr hálfri sítrónu
 • Salt eftir smekk
 • Grænmeti og ávextir eftir smekk

Leiðbeiningar

 1. Gott er að láta hneturnar liggja í bleyti í 2-8 tíma fyrir notkun, en það er ekki nauðsynlegt.
 2. Sósan er auðveld því hráefnin (nema pasta) eru öll sett saman í blandara og maukað þar til sósan verður silkimjúk.
 3. Pastað er svo soðið eftir leiðbeiningum á pakka og á meðan er skorið niður ýmiss konar grænmeti og ávextir. Ég notaði rauða papriku, rauð vínber, gúrku og radísur – blanda sem bragðaðist mjög vel.
 4. Öllu blandað saman og saxaðri steinselju stráð yfir. Borið fram volgt eða kalt.