Ananasfrómas – en samt ekki!

Ananasfrómas – en samt ekki!

Manstu eftir hinum dæmigerða ananasfrómas níunda áratugarins? Hann var búinn til úr einhvers konar dufti, þeyttum rjóma, matarlími og nokkrum bitum af niðursoðnum ananas til skrauts. Og hann bragðaðist DÁSAMLEGA. Ég get ennþá rifjað upp bragðið af þessum hefðbundna jóladesert æsku minnar en það eru sennilega komin á annan tug ára síðan ég fékk það af mér að láta þessa samsetningu ofan í mig.

Nýlega endurheimti ég þessa undursamlegu rjómkenndu ananassætu en í þetta sinn með heilsueflandi kröftum í kaupbæti í stað magapínu og sykurþoku. Þrátt fyrir einfaldleikann er þessi frómaskenndi þeytingur alveg bráðhollur, stútfullur af vítamínum og steinefnum og sérstaklega ríkur af beinastyrkjandi góðgæti. Að auki er að finna í ananas ensímið bromelain sem m.a. er talið hafa bólgueyðandi áhrif í líkamanum og auðvelda meltinguna svo hvað getur maður beðið um meira!

Þykkur, mjúkur og sætur þeytingur án alls viðbætts sykurs eða óæskilegra aukaefna. Ekkert nema næringarbombur úr náttúrunni og hentar hvort sem er í morgunmat, millimál eða jafnvel sem eftirréttur!

Hráefni

  • 1 dl ískalt vatn
  • Lítil handfylli hýðislausar möndlur
  • 2 mjúkar döðlur
  • 1/2 tsk hreint vanilluduft
  • 200 gr frosnir ananasbitar

Leiðbeiningar

  1. Allt nema ananas maukað saman í blandara þar til það verður að freyðandi, mjúkri möndlumjólk.
  2. Ananasbitunum bætt út í og blandað í mjúkan, þykkan og búðingskenndan þeyting.

Í þetta þarf nokkuð öflugan blandara eða matvinnsluvél, en mér finnst alltaf gott að leyfa honum að vinna í góða stund á lágum krafti til að mylja niður bæði möndlur og frosna ananasinn áður en ég hækka í botn til að ná lokaáferðinni.