Bakað eggaldin með kínóa

Bakað eggaldin með kínóa

Fólk hefur skiptar skoðanir um bragðgæði eggaldins, enda er hægt að elda bæði vondan mat og svo afar ljúffengan úr þessu skemmtilega hráefni. Þegar vel tekst til er þetta eitt ljúffengasta hráefni sem náttúran býður upp á og áferðin er alveg undursamleg. Ég hef mikinn áhuga á því að stuðla að upprisu eggaldins sem lúxushráefnis og þó ég segi sjálf frá er þessi uppskrift afskaplega góð leið til að sannreyna bragðgæði þessa fallega grænmetis…sem þó er í raun ávöxtur!

Þessi réttur er næringarríkur og fer vel í maga, og hentar bæði byrjendum og lengri komnum þar sem hægt er að bera hann þannig fram að fólk hafi val um hvort það borði hýðið utan af eggaldininu, en það er bragðsterkasti hluti þess.

Hráefni

 • 3 eggaldin
 • Dressing:
 • 1,5 msk dijon sinnep
 • 3 hvítlauksgeirar
 • 1 múk daðla
 • 2 msk hvítvínsedik
 • 1 tsk cumin
 • Fylling:
 • 1 dl ósoðið kínóa
 • 6 skalottlaukar
 • 6 sólþurrkaðir tómatar

Leiðbeiningar

 1. Þvoðu allt eggaldinið, þurrkaðu vel og bakaðu það í heilu lagi við 180 gráður í u.þ.b. 30-40 mínútur (þar til það verður vel krumpað að utan).
 2. Þvoðu kínóa í sigti og láttu það sjóða samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Ekki er verra ef það hefur verið látið liggja í bleyti í nokkra klukkutíma.
 3. Maukaðu saman öll hráefnin í dressinguna þar til blandan verður kekkjalaus. Láttu standa á meðan fyllingin er kláruð.
 4. Skerðu skalottlaukinn í þunnar sneiðar og saxaðu sólþurrkuðu tómatana.
 5. Hitaðu þykkbotna pönnu og helltu yfir hana botnfylli af vatni. Notaðu það til að vatnssteikja laukinn þar til hann verður glær – bættu við smáum skömmtum af vatni eftir þörfum.
 6. Bættu sólþurrkuðu tómötunum á pönnuna í restina, sigtaðu kínóa ef það hefur ekki drukkið í sig allt vatnið og blandaðu því svo saman við ásamt dressingunni.
 7. Þegar eggaldinið er orðið bakað skerðu hvert stykki eftir endilöngu og skefur innihaldið úr því með skeið. Saxaðu það svo niður í grófa bita og blandaðu saman við fyllinguna. Loks er fyllingin sett aftur ofan í eggaldinhýðið og borið fram.

Þeir sem hafa slæma reynslu af eggaldini munu ekki finna bragð af því í fyllingunni og þeir sem kunna að meta eggaldinbragð geta notið þess að borða hýðið með!