Blandari: Blendtec eða Vitamix?

Blandari: Blendtec eða Vitamix?

Ef ég mætti velja mér bara eitt tæki í eldhúsið þá yrði það hvorki eldavél né ísskápur heldur góður blandari. Minn hefur svo sannarlega fengið að vinna fyrir kaupinu sínu undanfarin ár, alla daga, oft á dag, allan ársins hring. Ég hef komist upp með að eiga enga matvinnsluvél og hef gert allt frá hrákökum og hnetusmjöri upp í smoothie drykki og möndlumjólk í þessari stórkostlegu uppfinningu.

Ég er oft spurð að því hvernig blandara ég eigi og hverju ég mæli með. Við þessum spurningum gef ég ekki sama svarið. Árið 2007 keypti ég mér Vitamix blandara sem hefur þjónað mér vel og stóð sig með ágætum fyrstu 2-3 árin. Síðan þá hefur aðeins farið að halla undan fæti, hann ræður ekki lengur við hnetusmjör og aðra þunga vinnslu og meria að segja hummusið mitt hefur þurft að þynnast út smám saman svo blandarinn mauki það nógu vel. Allt sem er á þykkt við súrmjólk eða þynnra tætir hann í sig og skilar frá sér alveg silkimjúkum og alveg kekkjalausum vökva. Flest annað krefst meiri þolinmæði og vinnu.

Vitamix kannan er þannig hönnuð að hún er mjó neðst og víkkar upp. Í henni eru fjórir hnífar og mér til mikilla skaprauna veldur þetta oft svokallaðri loftbólu þegar hráefnið þrýstist út til hliðanna og hnífarnir byrja bara að snúast í tómarúmi. Þess vegna þarf stöðugt að nota þar til gerðan staut til að ýta hráefninu aftur að hnífunum. Þetta olli engum vandamálum á meðan hann var nýr en í dag þarf ég að fara mjög varlega í svona þvingunaraðgerðir því hann einfaldlega fer í varnarbaráttu, slekkur á sér og er ekki viðræðuhæfur í nokkra klukkutíma á eftir. Ég minni á að gripurinn er orðinn níu ára gamall þegar þetta er skrifað en þessi vandræði gerðu fyrst vart við sig fyrir svona fimm árum síðan, eftir fjögurra ára notkun. Það getur vel verið að þetta sé vandamál sem ekki er til staðar í nýrri týpum en mér skilst á veraldarvefnum að loftbóluvandinn sé samt sem áður ennþá vesen.

Svo var það fyrir u.þ.b. tveimur árum síðan að ég kynntist Blendtec þegar fjárfest var í slíku tryllitæki á kaffistofu þáverandi vinnuveitanda. Þar gat ég dundað mér við smoothiegerð í matar- og kaffitímum og þrátt fyrir að hafa verið, þrátt fyrir allt, prýðilega sátt við Vitamixinn minn þá opnaðist fyrir mér nýr heimur! Höldum því til haga að ég hef ekki reynslu af Blendtec í neinni sérlegri matargerð, aðeins í drykkjaþeytingu, en munurinn þar á milli tegunda var ótrúlegur. Blendtec er fljótari að blanda og gerir það enn betur en Vitamix. Stærsta forskotið er þó í lögun könnunnar og hnífafjölda. Mér þótti í fyrstu ekki mikið til koma þegar ég horfði á tvo hnífa í Blendtec könnunni en snilldin felst í því að þeir mynda enga loftbólu. Það fylgir ekki einu sinni stautur með því það bara þarf ekki. Lögun hnífanna og könnunnar er gerð með þeim hætti að hráefnið sogast að miðjunni frekar en að þrýstast út í hliðarnar og þannig þarf ekkert að hafa fyrir þessu.

Til viðbótar er svo rosalega stór munur sem felst í tæmingu og þrifum. Blendtec kannan er víð og lág en Vitamix há og mjó að neðan. Það er tómt vesen að ná restum upp úr vitamix könnunni, t.d. fer alltaf óþægilega mikið hummus til spillis því það er ekki nokkur leið að ná því almennilega undan hnífunum. Botninn á Blendtec könnunni er aftur á móti mjög aðgengilegur og ekkert einfaldara en að moka afgöngum þar upp. Reyndar er núna hægt að velja lægri könnu á Vitamix. Hugsanlega auðveldar það málið aðeins en hnífarnir eru ennþá fjórir og það er smá vesen.

Mér finnst eiginlega prinsipp mál að fara ekki út í brjálaðar blandarafjárfestingar á meðan Vitamixinn minn er enn nothæfur en ég verð að viðurkenna að ég bíð spennt eftir þeim degi sem ég „neyðist“ til að skipta honum út. Þá verður Blendtec umsvifalaust fyrir valinu. Báðir eru samt sem áður mjög góðir kostir svo ég hvet þig til að gera þína eigin athugun!

Vitamix fæst í Kælitækni og Blendtec hjá Heimilistækjum