Bólgueyðandi drykkur eftir æfingu

Bólgueyðandi drykkur eftir æfingu

Uppáhalds líkamsræktin mín eru langir Hot yoga tímar sem reyna á styrk og einbeitingu, auka liðleika og fá mig til að virkja alla mögulega vöðva líkamans. Eftir slíka áreynslu get ég næstum því heyrt vöðva og liðamót mala af ánægju og léttleika!

Það krefst áframhaldandi einbeitingar að passa upp á að vöðvarnir herpist ekki upp í stressi og hraða hins daglega amsturs eftir að út úr heitum salnum er komið og þar koma til bæði huglægar and-streitu-aðferðir og ekki síður hinn stórkostlegi lyfjaskápur náttúrunnar. Ég hef oft notað túrmerik eftir áreynslu til að draga úr hættunni á bólgum en ákvað að tína til ýmis fleiri bólgueyðandi og töfrandi hráefni í allsherjar eftir-æfingar-drykk sem hjálpar mér að jafna mig hraðar eftir æfingu og halda vöðvunum í hinu afstressaða ástandi.

Ég varð ekki fyrir vonbrigðum með útkomuna, hvorki bragðið né áhrifin. Þessi blanda ótrúlega kröftugra hráefna fyllir mig krafti, skerpir á andlegri snerpu og ég hreinlega finn hvernig krafturinn breiðist út til hverrar frumu líkamans. Eftir þennan galdradrykk er ég klár í slaginn, verkjalaus, harðsperrulaus og liðug strax í næsta tíma.

Þessi bragðast svo sannarlega ekki eins og hver annar þeytingur, heldur er bragðið vel kryddað og sterkt, en að mínu mati verða þessi hlutföll að fullkominni og bragðgóðri blöndu.

 • Kókosvatnið er sannkallaður sportdrykkur náttúrunnar og inniheldur mikið af steinefnum sem gagnast líkamanum frábærlega eftir áreynslu.
 • Ananas er C-vítamínríkur og inniheldur ensímið bromelain sem er talið hafa bólgueyðandi og jafnvel verkjastillandi áhrif.
 • Bláber innihalda mikið magn andoxunarefna og gefa drykknum einstaklega ferskt bragð í bland við sætan ananasinn.
 • Engifer er vel þekktur fyrir ótal heilsubætandi áhrif, er talinn styrkja ónæmiskerfið og draga úr bæði bólgum og verkjum.
 • Túrmerik þarf vart að fjölyrða um, það er mikið notað til að draga úr bólgum og verkjum og er hægt að fá bæði sem ferska rót eða þurrkað og malað í hefðbundnum kryddstaukum. Ég nota lífrænt, malað túrmerik og pínulítið af nýmöluðum svörtum pipar sem þúsundfaldar virkni túrmeriks.
 • Kanill hjálpar til að halda blóðsykri í jafnvægi og er talinn geta dregið úr bæði verkjum og bólgum.
 • Cayenne pipar er annað töfrakrydd sem hefur frábær alhliða áhrif á líkamsstarfsemina og er þekkt fyrir verkjastillandi og bólgueyðandi áhrif.
 • Grænkál er ein næringarríkasta fæðutegundin sem náttúran hefur fært okkur og ég legg mig fram um að bæta því í matinn minn á hverjum degi. Einn af kostum þess eru hamlandi og fyrirbyggjandi áhrif á bólgur í líkamanum.
 • Hampfræin bæta í drykkinn heilnæmri fitu og næringu, en það er ekkert því til fyrirstöðu að nota meira af þeim eða prófa önnur fræ í staðinn, t.d. chia eða hörfræ.

Hráefni

 • 2-3 dl kókosvatn
 • 1-2 dl frosnir ananasbitar
 • 1/2 – 1 dl bláber
 • 1 grænkálsblað
 • 1 tsk hampfræ
 • 1 cm engiferrót
 • 1/2 tsk kanill
 • 1/4 tsk túrmerik
 • 1/4 tsk cayenne pipar
 • Örlítill nýmalaður svartur pipar

Leiðbeiningar

 1. Settu allt hráefnið í blandara nema grænkálið og skildu eftir þriðjung af kókosvatninu. Láttu allt blandast rækilega saman.
 2. Bættu grænkálinu út í í lokin og bættu við kókosvatni eftir þörfum og smekk.

Mér finnst gott að nota mikið kókosvatn og hafa drykkinn þunnfljótandi, bæði til að bæta fyrir vökvatap á æfingunni og einnig vegna þess að hann er svo frískandi. Það er ótrúlega hressandi að þamba þennan kryddaða drykk eftir mikla áreynslu.