Ferskur grænn safi fyrir byrjendur

Ferskur grænn safi fyrir byrjendur

Það jafnast ekkert á við ljómandi ferskan grænan drykk hvort sem er að morgni eða seinnipartinn þegar vantar dálitla innspýtingu fyrir verkefni kvöldsins. Grænn safi hefur þó í hugum margra tengingu við skelfilega árás á blaðlaukana, hrylling og skelfingu. Eitthvað sem er jafnvel talið fyrir (miklu) lengra komnar heilsuhnetur en ekki fyrir hvern sem er.

Ég luma á uppskrift að ótrúlega ljúffengum og frískandi grænum safa sem er elskaður af öllum sem hafa smakkað, bæði börnum og fullorðnum. Þetta er svona nokkurs konar byrjendadrykkur því hann hefur ekkert bragð sem erfitt er að venjast, jafnvel þó í honum sé sellerí, og svo má smám saman bæta í hann meira grænu og minnka ávextina á móti.

Til að fræðast meira um tilgang safagerðar og allt sem henni tengist geturðu lesið pistilinn minn um safagerð hér.

Afraksturinn af þessari uppskrift er misjafn eftir tegund safapressu, stærð og gæðum hráefnisins en úr Kuving’s pressunni minni fæ ég um 600-700 ml af safa í hvert sinn. Það dugar fyrir einn mjög þyrstan eða fyrir tvo sem frábær orkuinnspýting.

Hráefni

  • 1/2  búnt grænkál
  • 1 agúrka
  • 1 sellerístilkur
  • 1/2 – 1 lime
  • 4-5 stilkar fersk mynta
  • 2 lífræn epli
  • 2 lífrænar perur

Leiðbeiningar

  1. Undirbúðu allt hráefnið með því að fjarlægja stilka, þvo og skera.
  2. Settu allt í pressuna til skiptis, láttu stilka grænkálsins vísa niður og settu 2-3 stykki í pressuna í einu á milli þess sem þú pressar önnur hráefni.
  3. Drekktu strax eða færðu í lokað ílát og geymdu í ísskáp – því fyrr sem þú drekkur safann, því betra.

Úr þessari uppskrift kemur frekar lítið af hrati, allavega úr minni pressu. Í því eru mjög grófar og langar trefjar sem erfitt er að tyggja svo ég nýti það ekki frekar.