Frosnar möndlu- og kornflögukökur

Frosnar möndlu- og kornflögukökur

Ef þér leiðist á sunnudegi þá er upplagt að hræra saman í þessar kökudúllur og skella þeim í frystinn. Það er ótrúlega þægilegt að eiga svona við höndina þegar mann langar í eitthvað dálítið sætt eða vantar smá orkuskot á milli mála. Ég mæli með því að nota lífrænu kornflögurnar frá änglamark í þessar kökur því hefðbundnar kornflögur eru úr erfðabreyttum maís, og ef þú ert vegan þá hentar Kellogg’s ekki þar sem D vítamínið í því er unnið úr húðfitu kinda.

Sistema 200mlÉg nota alltaf 200 ml plastbox frá Sistema undir svona kökur því sú stærð smellpassar akkúrat fyrir einn skammt. Úr þessari uppskrift geturðu fyllt fjögur þannig box en auðvitað má búa til stærri eða minni bita, allt eftir því hvað passar fyrir þig.

Þessar kökur eru bæði hollar og ljúffengar, en þær eru líka mjög vinsælar hjá börnum og unglingum. Það er snilld að hafa svona tilbúið í frystinum fyrir hungraða grunnskólanema sem koma heim á undan foreldrunum 🙂

Hráefni

  • 4 dl lífrænar kornflögur
  • 2 msk möndlusmjör
  • ca 40 stk trönuber, þurrkuð

Leiðbeiningar

  1. Settu möndlusmjörið í lítinn pott og hitaðu við vægan hita þar til það er orðið fljótandi.
  2. Saxaðu trönuberin og bættu þeim út í.
  3. Helltu kornflögunum út í og hrærðu vel.
  4. Settu svo allt saman í lítil box og geymdu í frysti.

Þessar eru ljúffengar og hressandi beint úr frystinum!