Heimsins besta bananabrauð!

Heimsins besta bananabrauð!

Ég hef tekið eftir því að það er vinsælt að velta vöngum yfir því hvernig skuli nýta aldraða banana. Jafnframt hef ég orðið vör við það að hið staðlaða svar við þeim heilabrotum er „bakaðu bananabrauð!“. Svo komst ég að því að ein eftirsóttasta uppskrift internetsins alls er einmitt bananabrauð! Það er eitt af allra vinsælustu leitarorðum Google í uppskriftadeildinni. Og það er sko af nægu að taka því uppskriftaflóðið er óendanlegt. Þess vegna ákvað ég að skora á sjálfa mig að búa til svo gott bananabrauð að ég gæti bara ekki deilt við sjálfa mig um að það hlyti að vera það besta í heimi. Ég bíð svo spennt eftir að vita hvað þér finnst!

Að sjálfsögðu er mín uppskrift full af hollustu og til að gera áskorunina enn verðugri ákvað ég að hafa þetta ekki bara vegan heldur líka glútenlaust. Hér er því um að ræða hollt, glútenlaust, eggjalaust, mjólkurlaust og já…SYKURLAUST bananabrauð sem er svo ljúffengt að ég get ekki hætt að borða það. Sem betur fer kemur það ekki að sök því ólíkt mörgu öðru brauði skilur þetta ekki eftir sig tveggja tíma magaverk og slen.

Glútenlaus bakstur er ekkert lamb að leika sér við og það er eggjalaus bakstur ekki heldur. Þegar þetta tvennt sameinast í einu bananabrauði er eins gott að vanda til verks enda tók fullkomnun þessar uppskriftar þó nokkuð langan tíma og margar tilraunir. Ég mæli því með að þú farir eins nákvæmlega eftir uppskriftinni og leiðbeiningunum og þú mögulega getur, allavega í fyrsta sinn. Mundu svo bara að nota banana sem eru alveg orðnir ELDgamlir og ljótir.

Baksturinn sjálfur er mjög fljótlegur og einfaldur en hann reynir þó verulega á þar sem töluverður biðtími kemur við sögu. Vinnan sjálf tekur ekki nema svona fimm mínútur í heildina og svo tekur við baráttan við hungurverkina þegar ilmurinn byrjar að æra sælkerann.

Ég notaði Doves glútenlausa mjölblöndu og kínóaflögur frá Nature Crops. Ég get ímyndað mér að annars konar mjölblöndur eða kínóaflögur gætu leitt til ólíkra afurða þar sem mjölblandan er lykill og kjarni málsins. Ef þú hefur engan aðgang að kínóaflögum ætti alveg að ganga upp að nota glútenlaust haframjöl í staðinn. Útkoman verður samt aðeins öðruvísi.

Áður en þú byrjar skaltu kveikja á ofninum og hita hann að 180 gráðum. Það er mjög mikilvægt að hann sé kominn í fullan hita áður en brauðið fer í ofninn og þegar þú byrjar að baka þá gerast hlutirnir hratt. Þegar ofninn er byrjaður að mala skaltu líka hræra saman möndlumjólk og chia fræjum svo sá grautur sé klár í slaginn. Svo þarftu að bíða í ca 15-20 mínútur.

Hráefni

 • 1 dl möndlumjólk
 • 2 msk chia fræ
 • 3 dl Doves glútenlaust mjöl
 • 1,5 dl kínóaflögur
 • 1,5 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1/4 tsk salt
 • 1/2 tsk kanill
 • 3-4 stk bananar, vel þroskaðir (ca 400 gr)
 • 12 stk mjúkar döðlur
 • 50 gr pecan hnetur

Leiðbeiningar

 1. Hitaðu bakarofninn í 180 gráður – mjög mikilvægt að gera það strax.
 2. Hrærðu saman möndlumjólk og chia fræjum, láttu standa á borði í ca 15-20 mínútur eða þar til þetta er orðið að frekar þykku hlaupi sem loðir rækilega saman.
 3. Fóðraðu formkökuform með bökunarpappír. Ég nota yfirleitt eina örk, klippi af henni lengju sem fer langsum í formið og upp úr báðum endum, hinn hlutinn fer svo þversum ofan í og þannig get ég togað brauðið auðveldlega upp úr með því að taka í hvaða uppúr-standandi-enda sem er. Þú þarft að hafa formið tilbúið áður en aðgerðir hefjast.
 4. Hrærðu saman í einni skál mjölblöndu, kínóaflögur, vínsteinslyftiduft, salt og kanil. Geymdu þetta til hliðar.
 5. Þegar chia hlaupið er tilbúið seturðu það í matvinnsluvél eða blandara ásamt banönum, pecan hnetum og döðlum (mundu að taka steinana úr fyrst). Þeyttu þetta allt saman í alveg slétt mauk og láttu svo ganga aðeins lengur þannig að þetta mauk hálfpartinn þeytist saman.
 6. Helltu nú bananamaukinu í tóma skál og notaðu sílikonsleikju eða annað handhægt áhald til að blanda þurrefnunum mjúklega saman við. Ekki hræra eða þeyta, reyndu að hafa handtökin eins fá og mögulegt er og gera þetta hratt.
 7. Þegar allt er komið saman hellirðu deiginu í formið sem þú hafðir tilbúið og skellir því beinustu leið inn í miðjan ofninn, lokar á eftir og bíður í heilan klukkutíma. Það er lykilatriði að láta deigið ekki bíða stundinni lengur en nauðsynlegt er því um leið og þú sameinar þurrefnin við bananamaukið byrjar vínsteinslyftiduftið með uppsteyt og það þarf að kynda undir því svo ekki fari illa.
 8. Þú munt sjá toppinn byrja að brúnast frekar snemma og lyktin mun byrja að umkringja þig eftir ca 20 mínútur. Ekki falla fyrir þessum blekkingum, brauðið þarf í alvörunni klukkutíma til að bakast.
 9. Að klukkutímanum liðnum eru þjáningar biðlundarinnar því miður ekki enn á enda því krúttið þarf að komast út úr hitanum og standa í aðra klukkustund áður en þú getur byrjað að skera og njóta.

Svo máttu njóta! Og treystu mér með það að öll skrítnu ráðin og skrefin í þessum leiðbeiningum skipta miklu máli og þau verða þess virði á endanum. Ég gæti ekki verið ánægðari með bragð, áferð og hollustugildi þessa dásamlega bananabrauðs og ég vona að það sama eigi við um þig.