Grænt morgunte

Grænt morgunte

Þeir dagar sem ég byrja á því að drekka sítrónu- eða limevatn verða alltaf betri. Þetta er eitt einfaldasta en áhrifaríkasta ráðið sem ég hef reynt til að bæta orku og vellíðan, þó það geti hljómað ótrúlega.

Netið er uppfullt af fullyrðingum um áhrif þess að drekka sítrónuvatn á morgnana og ég veit ekki hverjar þeirra hafa verið staðfestar með rannsóknum, en eigin upplifun lýgur ekki svo ég hvet alla til að prófa í eina viku til að reyna áhrifin á eigin kroppi.

Þetta er afskaplega einfalt – best er að nota vatn sem er í kringum 35 – 40 gráður (ég nota hraðsuðuketil og læt hann malla í nokkrar sekúndur). Svo kreisti ég eitt lime eða hálfa sítrónu út í 300-500 ml af vatni og dreypi á þessu á meðan ég sinni öðrum morgunverkum. Eftir að vatnið er búið bíð ég eftir svengdartilfinningu (yfirleitt 10-30 mínútur) og fæ mér svo morgunmat.

Algengt er að þessi venja sé tengd við fullyrðingar um afeitrun (detox), bætta meltingu, bætta virkni ónæmiskerfisins, minnkandi bólgur, vörn gegn vírusum, aukna orku, minni sykurlöngun og ferskari andardrátt – og margir finna enga eða minni þörf fyrir sinn daglega morgunkaffibolla! Sjálf hef ég upplifað margt af þessu auk þess sem mígrenihöfuðverkir koma aldrei nokkurn tímann upp þá daga sem ég byrja á sítrónuvatni.

Annar frábær morgundrykkur er grænt te, sem er þekkt og marg rannsakað fyrir ótrúlega virkni og heilsueflandi áhrif.

Ég komst að því nýlega að grænt te er af afar mismunandi gæðum og áhrifin því mjög mismunandi eftir tegundum og vinnsluaðferðum. Án þess að ég fari út í nánari málalengingar sýnist mér flestir vera sammála um að hreinasta og öflugasta græna teið er það sem er lífrænt ræktað og selt í lausum laufum frekar en í dufti eða pokum.

Þetta þóttu mér spennandi vísindi og hef undanfarið notið þess að drekka 2-3 glös af dýrindis te á hverjum degi. Það sem kom mér mest á óvart var hversu mikið bragðbetra það er bruggað úr laufum en úr þessum dæmigerðu tepokum. Algengt er að laust te sé sett í þar til gerðar málmsíur eða margnota tepoka, en ég vildi ná sem mestum hreinleika og fann þetta stórsniðuga glerglas frá Tehúsinu með innbygðri síu – einnig úr gleri. Einfalt og hreinlegt – laust við allan málm og pokaþvott.

Núna fæ ég mér glas af grænu tei með ferskum sítrónusafa á morgnana, nýti þannig alla kosti beggja drykkja og er viss um að það færi mér ómetanlegt forskot inn í daginn

Prófaðu! Hefurðu nokkru að tapa?