Heitt brauðsalat

Heitt brauðsalat

„Eitthvað ofan á brauð“ er orðasamband sem hlaut alveg nýja merkingu í mínu lífi eftir að ég henti saman þessari uppskrift. Ég hafði keypt mér svo ilmandi og mjúkt súrdeigsbrauð sem mig langaði að gera eitthvað spennandi við en steingleymdi alveg að kaupa eitthvað til að föndra álegg úr.

Því voru góð ráð dýr og á endanum henti ég saman örfáum hráefnum sem ég átti til í ísskápnum. Eins og oft vill verða með svona slysauppskriftir var útkoman ótrúlega ljúffeng og ég sé fyrir mér ótal möguleika með þessa hráefnablöndu! Það skemmir ekki fyrir að matargerðin tók vel innan við fimm mínútur.

Þetta getur verið heitt salat ofan á brauð eins og fyrsti tilgangurinn var, það mætti blanda saman við þetta hrísgrjónum, byggi eða kínóa og kalla það pottrétt eða setja með brakandi fersku grænmeti í vefjur. Mauka saman með töfrasprota og nota til að smyrkja ofan á brauð eða blanda kókosmjólk út í og skapa einhverja splunkunýja tegund af súpu eða sósu. Svo gæti þetta náttúrulega verið hinn fullkomni partýmatur, maukað og smurt á litlar sneiðar eða borið fram sem ídýfa með ókrydduðum tortillaflögum. Ég veit ekki hvar ég á að byrja!

Hlutföllin eru handahófskennd og hráefnin ekkert heilög. Prófaðu að nota spínat í stað grænkáls eða kasjúhnetur í stað pistasía. Bættu út í þetta einhverju öðru góðgæti sem þú lumar á í skápunum og búðu til eitthvað alveg nýtt.

Hráefni

  • 3-4 msk sólþurrkaðir tómatar
  • 1-2 hvítlauksgeirar
  • 1/4 rauðlaukur
  • 6-10 svartar ólífur
  • 3-4 grænkálsstilkar
  • Handfylli af hráum pistasíuhnetum

Leiðbeiningar

  1. Kreistu olíuna úr sólþurrkuðu tómötunum, saxaðu hvítlauk, rauðlauk og ólífur og hitaðu allt saman við vægan hita í 2-3 mínútur.
  2. Skolaðu grænkálið, rífðu það af stilkunum og blöðin niður í smærri búta. Hentu stilknum eða geymdu hann í safagerð.
  3. Taktu pottinn af hellunni, hrærðu grænkálið saman við og láttu það taka í sig hita í 1-2 mínútur eða þar til það er orðið dökkgrænt og hefur minnkað að umfangi.
  4. Blandaðu hnetunum saman við og berðu fram.