Hráfæðistöggur

Hráfæðistöggur

Nýlega keypti ég mér nokkra poka af makadamíahnetum sem hreinlega kölluðu á mig, þær voru svo ómótstæðilegar og girnilegar. Eftir að hafa geymt þær inni í skáp í nokkra daga og velt fyrir mér hvaða ljúfmeti ég ætti að gera úr þeim fann ég á netinu fjölda uppskrifta að hráfæðiskaramellu sem voru svo einfaldar að ég gat ekki annað en prófað. Í raun þarf varla uppskrift þar sem þessi sætu og næringarríku krútt innihalda aðeins tvö hráefni og það er alveg um að gera að prófa annars konar hlutföll og sjá hverju það breytir.

Makadamíuhneturnar gefa eitthvað sérstakt bragð sem er ótrúlega bragðlaukagleðjandi og gefur sætleika daðlanna dýpt sem minnir rækilega á hefðbundna karamellu.

Þessar karamellur er upplagt að eiga til í frysti og grípa í eina og eina töggu þegar gesti ber að garði eða þegar sætindalöngun gerir vart við sig. Nauðsynlegt er að nota mjúkar döðlur sem er að finna í grænmetiskælum flestra verslana því annars verður þrautin þyngri að blanda þessu öllu saman. Hlutföllin eru ekkert til að stressa sig á, flestar uppskriftir að sams konar góðgæti segja til um jöfn hlutföll en ég hafði talsvert meira af döðlum í minni útgáfu.

Hráefni

  • 75 gr makadamíu hnetur
  • 120 gr mjúkar döðlur – vigtaðar eftir steinhreinsun

Leiðbeiningar

  1. Blandaðu hráefnunum vel saman í matvinnsluvél.
  2. Leggðu bökunarpappír í lítið mót og smyrðu blöndunni jafnt yfir. Settu svo í frysti í a.m.k. hálftíma

Mér finnst gott að hafa langa enda á pappírnum sem ég get lagt yfir karamelluna áður en ég set mótið í poka og svo inn í frysti. Þá er auðvelt að lyfta karamellunni upp úr, draga pappírinn undan og skera með hnífi í litla munnbita sem minna á hinar gömlu góðu töggur. Loks legg ég töggurnar aftur á pappírinn og ofan í mótið ef ég vil geyma þær í frysti og grípa í þær seinna. Ég nota ferkantað Mixtur ofnmót frá Ikea sem er 15x15cm að stærð og með því finnst mér þykktin fullkomin.