Hummus

Hummus

Þarf nokkuð að kynna hummus sérstaklega til leiks? Ég vona að þú hafir þegar kynnst þessu stórkostlega baunamauki sem gerir næstum því allt betra. Þetta er alveg frábært sem álegg, ídýfa eða sósa og ég hef meira að segja verið staðin að verki við að borða hummus eintómt með skeið. Oftar en einu sinni!

Unglingarnir mínir elska þessa hummus uppskrift og hún geymist ekkert í ísskáp, klárast bara jafnóðum. Það er ótrúlega handhægt að henda í einn skammt og borða með t.d. Finn Crisp hrökkbrauði, glútenlausa kexinu frá Mary’s Gone Crackers, niðurskornu grænmeti eða blanda saman við ferskt salat. Hummus er líka frábært á borgara eða sem meðlæti með ýmsum mat.

Lykillinn í þessari uppskrift er næringargerið og reykta paprikukryddið. Ég mæli með Naturata eða Engevita næringargeri og ég kaupi reyktu paprikuna mína alltaf í pokum í Tiger. Það sem ég hef prófað úr matvöruverslunum er einfaldlega ekki nærri því eins gott!

Hráefni

  • 1 krukka kjúklingabaunir (t.d. frá Himneskt)
  • 2 msk tahini
  • 1-2 msk ferskur Lime safi
  • 1-3 hvítlauksrif
  • 2 msk næringarger
  • ½ – 1 dl vatn
  • Smá salt
  • Reykt paprikukrydd eftir smekk

Leiðbeiningar

  1. Allt maukað saman þar til það verður slétt og mjúkt.
  2. Bættu við vatni eftir þörfum til að auðvelda blöndunina og fá út rétta þykkt.