Kókos- og kínóa súkkulaðidraumur

Kókos- og kínóa súkkulaðidraumur

Nature Crops forsoðið kínóa
Nature Crops forsoðið kínóa
Nature Crops kínóaflögur
Nature Crops kínóaflögur

Kínóa er eitt uppáhalds hráefnið mitt vegna þess hversu fjölbreyttir notkunarmöguleikarnir eru, bragðið ljúffengt og næringargildið hátt. Kínóa er mjög próteinríkt og inniheldur allar lífsnauðsynlegu amínósýrurnar auk þess að færa líkamanum fjöldan allan af vítamínum, steinefnum og plöntunæringarefnum (e. phytochemicals). Ég nota heilt kínóa t.d. sem grunn í máltíðir eða salöt, sem meðlæti og í bakstur. Nú er komin heil lína af kínóavörum frá Nature Crops í Nettó og möguleikarnir eru svo fjölbreyttir að ég veit varla hvar ég á að byrja! Hægt er að fá heilt kínóa sem soðið er með hefðbundnum hætti, og einnig er til forsoðið og þurrkað kínóa fyrir stressaða og tímabundna sem soðnar á örfáum mínútum. Að auki er til kínóamjöl í bakstur og kínóaflögur sem nýta má m.a. í bakstur og í morgungrauta. Á vefsíðu Nature Crops er að finna fjöldan allan af uppskriftum og þegar ég rak augun í þessi dásamlegu súkkulaði-kókosstykki bara varð ég að bæði prófa og betrumbæta með hollustuna í huga.

Útkoman olli alls engum vonbrigðum og það er alveg á hreinu að ég geri margfalda uppskrift næst til að hlífa fjölskyldunni við matarslagsmálum 🙂

Í þessari uppskrift eru nokkur hráefni sem eru e.t.v. framandi fyrir þig en fyrir alla muni – ef þú átt ekki allt í hana nú þegar, farðu ekki út í búð og kauptu allt á einu bretti. Hér fyrir neðan fer ég í gegnum hvaða hráefni má sleppa eða breyta til að þú þurfir ekki að fylla eldhússkápana af ótal nýjungum á einu bretti.

 • Kókosmjólk – hún er sæt og þykk en í staðinn má nota möndlumjólk eða aðra jurtamjólk að eigin vali.
 • Kókosmjöl – þetta hráefni er til í flestum eldhúsum og er eiginlega ómissandi hér. Það má meira að segja vel bæta dálitlu auka magni við.
 • Forsoðið kínóa – það getur verið erfitt að skipta þessu út en þú gætir notað þeim mun meira af kínóaflögunum ef þú átt þær til eða blandað þetta með fullsoðnu kínóa þar til blandan verður passlega þykk. Athugaðu að forsoðna kínóað frá Nature Crops er þurrt og þarf nokkurra mínútna suðu en einnig er til forsoðið kínóa frá Food Doctor sem er blautt og tilbúið til neyslu og hentar ekki alveg eins vel.
 • Kínóaflögur – það má einnig nota bókhveitiflögur eða jafnvel fínt haframjöl ef þú þolir glúten. (glútenlaust haframjöl er að sjálfsögðu möguleiki líka).
 • Möndlur – það má nota hvaða hnetur sem er eða sleppa þeim alveg. Það væri líka skemmtilegt að prófa þurrkuð ber eða kakónibbur.
 • Kókossykur – bæði er til þurr og fljótandi kókossykur. Það má sleppa honum eða nota hvaða sætu sem er í staðinn, en hann er ljúffengur og með mjög lágan sykurstuðul, þess vegna nota ég hann í margar uppskriftir.
 • Banani – það má sleppa honum alveg, hann gefur dálítinn bananakeim eðli málsins samkvæmt, en það mætti líka bæta við meiri kókossykri og kókosmjöli í staðinn.
 • Kanill – ekki nauðsyn en gefur dálitla dýpt í bragðið án þess að vera yfirgnæfandi.
 • Dökkt súkkulaði – ég notaði Balance sykurlaust, dökkt súkkulaði en það má nota hvaða dökka súkkulaði sem er.
 • Hrákakó – í stað hrákakós mætti nota meira súkkulaði eða sleppa því alveg.

Þessi uppskrift er ekki viðkvæm fyrir breytingum svo prófaðu endilega alls konar útfærslur og smakkaðu bara maukið þar til þér líkar bragðið.

Hráefni

 • 2 dl kókosmjólk
 • 3 msk kókosmjöl
 • 50 gr forsoðið, þurrt kínóa
 • 2 msk kínóaflögur
 • Handfylli af hýðislausum möndlum
 • 1 msk kókossykur
 • 1/2 – 1 banani
 • 1 tsk kanill
 • 80-100 gr dökkt súkkulaði
 • 2 msk hrákakó

Leiðbeiningar

 1. Settu kókosmjólk, kókosmjöl og forsoðið kínóa í pott og láttu sjóða við vægan hita í 5 mínútur.
 2. Saxaðu möndlur og skerðu banana smátt á meðan blandan mallar.
 3. Taktu pottinn af hitanum og bættu öllum hráefnunum út í.
 4. Hrærðu vel þannig að súkkulaðið bráðni og bananinn maukist saman við.
 5. Helltu blöndunni á bökunarpappír í u.þ.b. 2 cm þykkt.
 6. Láttu hana harðna í ísskáp í ca 2 klukkutíma og skerðu svo í hæfilega bita, veltu upp úr kókos og stingdu í frystinn.

Gríptu í bita næst þig langar í eitthvað sætt og nærandi.