Mexikóskar baunabollur

Mexikóskar baunabollur

Það er sennilega orðið meira en áratugur síðan ég notaði síðast þetta dæmigerða mexíkóska baunamauk, svokallaðar refried beans, þar sem ég kunni illa við aukaefnin sem gjarnan fylgja þeim og vildi alls ekki borða baunirnar mínar stappaðar saman við svínafitu eða aðra dýrafitu sem leynist oft í slíkum dósum.

Nýlega uppgötvaði ég hins vegar þetta lífræna mexíkókryddaða baunamauk frá Biona sem inniheldur hvorki dýrafitu né óæskileg aukaefni og hef nú á stuttum tíma farið í gegnum fleiri dósir en ég þori að viðurkenna! Jafnvel þó dósin kosti í kringum 500 krónur þykir mér hún vel þess virði þar sem næringargildi baunanna er óumdeilt og bragðgæðin falla algjörlega að mínum smekk. Ég hef notað maukið bæði á heilkorna tortillur og salatblöð en um helgina fékk ég nýja hugmynd að því hvernig mætti búa til spennandi rétt úr maukinu og útkoman stóð algjörlega undir væntingum.

Þessi uppskrift er afskaplega auðveld og fljótleg. Ef horft er framhjá suðutíma hrísgrjónanna tekur matreiðslan ekki meira en 5-10 mínútur og út úr því kemur dásamlega ljúffeng og næringarrík máltíð sem flestum þykir góð. Strangt til tekið er þetta alls ekki mexíkósk matargerð en kryddblandan í baunamaukinu gefur þessa mexíkósku stemmingu í bland við brakandi fersk og safarík hráefni. 

Léttkryddaðar mexikóskar bollur með ferskum blæ. Fjölbreyttir möguleikar í framreiðslu og notkun – eitthvað sem ætti að falla að smekk allra sem á annað borð kunna að meta mexikóskan andblæ við matarborðið.

Hráefni

 • 1 dós Biona Mexican Refried Beans
 • 2 dl stutt hýðishrísgrjón
 • 1,5 dl grófar hafraflögur
 • 3 vorlaukar
 • 1/2 rauð paprika
 • Lófafylli af heslihnetum
 • 1 cm engifer

Leiðbeiningar

 1. Sjóddu hrísgrjónin samkvæmt leiðbeiningum á pakka, færðu þau í sigti og láttu vatnið leka vel af þeim.
 2. Saxaðu vorlaukinn og paprikuna smátt, heslihneturnar gróflega og rífðu niður engiferinn ef þú vilt nota hann með.
 3. Blandaðu öllum hráefnunum saman í skál.
 4. Láttu standa í ísskáp í dágóða stund ef þú hefur þolinmæði í það, það gerir blönduna þéttari og bragðið nær að hnoðast betur saman.

Athugaðu að svona bollur verða alltaf mjög mjúkar og maukkenndar, ekkert í líkingu við fisk- eða kjötbollur. Næst á dagskrá er svo að ákveða hvernig skal framreiða bollurnar en möguleikarnir eru fjölmargir:

 • Það er hægt að móta bollur og bera fram eins og þær koma fyrir, með salati eða öðru meðlæti.
 • Þær má bera fram hvort sem er eins og þær koma fyrir eða baka þær fyrst í ofni í 10-15 mínútur við 180 gráður.
 • Bollurnar mega vera ýmist stórar eða litlar og það er flott að velta þeim upp úr t.d. sesamfræjum eða muldum kasjúhnetum.
 • Það má sleppa því að móta bollur og bera þetta fram sem mauk sem smurt er í tortillur eða salatblöð og vafið upp með fleira góðgæti. Ég prófaði að vefja mauki inn í salatblöð ásamt bitum af pomelo og það bragðaðist dásamlega!
 • Það má geyma blönduna í ísskáp og nota sem álegg á gott brauð, með alls konar grænmeti eða bara eitt og sér.
 • Það má sleppa haframjölinu og nota þetta sem ídýfu með stökku kexi eða grænmeti.