Nærandi súkkulaðidesert

Nærandi súkkulaðidesert

Ég er undanfarið búin að gera tilraunir með bygg og möndlumjólk í þeim tilgangi að búa til stórfenglega ljúffengan og næringarríkan morgungraut. Þessi blanda hefur svo sannarlega ekki valdið vonbrigðum og passar vel með hinum ýmsu ávöxtum og hnetum. Þegar ég var að sjóða byggið mitt í dag tók hins vegar eftirréttasælkerinn völdin og ég ákvað að gera örlitlar viðbætur svo grauturinn yrði að sparilegum eftirrétti sem þó uppfyllir fullkomlega kröfur um hollustu og morgunverðarnæringu ef stemming er fyrir því.

hrákakóAðal viðbótarhráefnið er lífrænt hrákakó, sem er óunnið og óristað svo það er uppfullt af heilnæmri og mikilvægri næringu. Hrákakó inniheldur t.a.m. heilan helling af kalki og járni ásamt fjölda annarra steinefna, vítamína, hollra fitusýra og flavoníða. Hefðbundið bökunarkakó er hins vegar næringarsnauðara og mun meira unnið og því nota ég það ekki. Á ensku kallast hrákakó cacao en bökunarkakó cocoa og því er auðvelt að rugla þessu tvennu saman. Leitaðu að kakói sem er annað hvort merkt á íslensku sem hrákakó eða á ensku sem cacao og hafðu það gjarnan lífrænt. Ég nota Rainforest Foods lífræna hrákakóið.

Að auki bætti ég út í þetta örlitlum kanil og hreinu lífrænu hlynsýrópi en fljótandi kókossykur væri líka frábær í þessa uppskrift.

Ég nota lífræna bankabyggið frá Móður Jörð sem er íslensk gæða framleiðsla, ljúffengt og næringarríkt. Nota má hvaða möndlumjólk sem er en ég nota oftast blandaða rís- og möndlumjólk frá Isola. Hún er bæði ódýrari og léttari en færir mér þetta einstaka möndlumjólkurbragð sem ég sækist eftir.

Hráefni

 • 2 dl bankabygg
 • 6 dl Isola hrísgrjóna- og möndlumjólk
 • 2 msk hrákakó
 • 1-2 msk hlynsýróp
 • 1/2 tsk kanill
 • 1/4 tsk himalayasalt

Leiðbeiningar

 1. Skolaðu byggið í sigti og láttu það svo sjóða í möndlumjólkinni við vægan hita í u.þ.b. 40 mínútur
 2. Blandaðu hinum hráefnunum saman við og smakkaðu til. Þú gætir viljað hafa grautinn sætari eða salta hann aðeins meira til að dýpka súkkulaðibragðið.

Ef þú vilt gera grautinn að eftirrétti er frábært að hafa með honum þeyttan kókosrjóma, kókosflögur og kakónibbur. Hann er einnig dásamlegur með berjum og ávöxtum, hvort sem er í morgunverð eða eftirrétt.

Þeyttur kókosrjómi:

Þetta finnst mér alveg dásamlegur staðgengill hins hefðbundna rjóma og ég á alltaf eina dós af kókosmjólk inni í ísskáp svo ég geti þeytt rjóma við hvaða tilefni sem er. Ég hef prófað nokkrar tegundir af kókosmjólk í rjómagerðina og það er misjafnt hversu vel þær þeytast. Undanfarið hef ég eingöngu notað änglamark lífræna kókosmjólk í þessum tilgangi þar sem ég lendi aldrei í vandræðum með þeytinguna og fæ óvenju mikið magn rjóma úr hverri dós.

 1. Geymdu dós af kókosmjólk í ísskáp í minnst einn sólarhring.
 2. Opnaðu dósina án þess að hrista hana eða hvolfa
 3. Skafðu þykka hlutann ofan af með matskeið og færðu yfir í skál.
 4. Þeyttu eins og hefðbundinn rjóma í 1-2 mínútur.

Þennan rjóma má bragðbæta með vanillukornum eða borða eins og hann kemur fyrir. Hann heldur sér vel og geymist vandræðalaust í nokkra daga í ísskáp. Vatnið sem eftir verður í dósinni má svo nota í súpur, sósur eða drykki!