Næringarrík hvítlauks- og rósmarínsósa

Næringarrík hvítlauks- og rósmarínsósa

Ef þú elskar kaldar sósur og getur illa ímyndað þér lífið án t.d. pítusósu þá er þessi svo sannarlega spennandi fyrir þig. Mér finnst hún passa frábærlega með næstum því hvaða mat sem er og hún er svo næringarrík að það er í góðu lagi að nota hana í ríflegum skömmtum eins oft og óskað er. Hún er t.d. FRÁBÆR í vefjur, pítur, á samlokur, með ofnbökuðu rótargrænmeti eða öllum réttum sem hafa tómatgrunn.

Það má nota sama grunn en önnur krydd til að útfæra hana á ýmsa vegu allt eftir því hver stemmingin er.

Hráefni

 • 1 krukka hvítar baunir
 • 3-4 hvítlauksgeirar
 • 1-2 dl vatn
 • 1 msk næringarger
 • 1 dl kasjúhnetur
 • 1 – 1,5 tsk þurrkað rósmarín
 • 1/2 tsk þurrkuð steinselja
 • Cayenne pipar á hnífsoddi

Leiðbeiningar

 1. Settu öll hráefnin saman í blandara eða matvinnsluvél, nema hneturnar og helminginn af kryddinu.
 2. Blandaðu þetta vandlega saman þannig að þú fáir út silkimjúka sósu.
 3. Bættu hnetunum við í lokin og smakkaðu sósuna áður en þú bætir afganginum af kryddunum við. Aðlagaðu eftir smekk.

Ég mæli alltaf með lífrænum hráefnum frekar en „hefðbundnum“ bæði heilsunnar og náttúrunnar vegna en auðvitað er það dýrari kostur sem ekki öllum stendur til boða. Uppskriftirnar verða sannarlega ennþá hlaðnar næringu þó ekki séu notuð lífræn hráefni. Eina hráefnið í þessari uppskrift sem ég legg þó sérstaka áherslu á að sé lífrænt eru kasjúhneturnar. Ég hef stundum ætlað að spara mér dálítinn pening með því að nota „ólífrænar“ kasjúhnetur en hef þá í sumum tilfellum eyðilagt heilu uppskriftirnar þar sem þær bera stundum með sér rammt og vont bragð sem yfirgnæfir annað bragð matarins. Að sama skapi hefur mér reynst best að blanda þær ekki of lengi til að viðhalda betur þessu kremkennda og milda bragði sem þær gefa og því mæli ég með að þær séu settar í blandarann síðast. Með því að leggja þær í bleyti krefjast þær enn styttri tíma í blandaranum auk þess sem næringargildi þeirra fyrir líkamann eykst við slíka meðhöndlun.