Næringarrík og seðjandi pizzabaka

Næringarrík og seðjandi pizzabaka

Það er eitthvað við sérbakaða matarskammta sem kitlar mig í hjartað og mér finnst ótrúlega gaman að gera fallega framsettar máltíðir úr einföldum hráefnum. Það er ekki flækjustigið eða langir hráefnalistar sem skapa góðar máltíðir heldur gæðin og samsetningin.

Þessi réttur er upplagður kvöldverður á dimmum, köldum mánudegi og fellur vel í kramið hjá bæði börnum og fullorðnum. Hann er líka frábært samvinnuverkefni fyrir stórar og litlar hendur þar sem sá eldri getur skorið hráefnið og sá yngri séð um að raða í bökuna. Prófaðu þína eigin útgáfu og hikaðu ekki við að nýta hvaða grænmeti sem er ef eitthvað er á síðasta snúningi í ísskápnum!

Þetta er einn af þessum réttum sem er alveg ótrúlega hollur og næringarríkur en bragðið svo syndsamlegt að það er næstum því erfitt að trúa því að það þurfi ekki að hafa samviskubit yfir máltíðinni!

Hráefnin eru fá og eldamennskan einföld en það sem reynir mest á er að biðtíminn er frekar langur. Ég lofa samt að hann er þess virði.

Hráefni

Bökudeigið:

 • 250 ml grófmalað spelt
 • 1 krukka hvítar baunir
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft

Fylling:

 • 1 stk sætar kartöflur
 • 1/2 – 1 brokkolíhaus
 • Nokkrir skalottlaukar
 • 1 krukka lífræn pizzasósa

Leiðbeiningar

Bökudeigið:

 1. Blandaðu saman þurrefnunum og maukaðu baunirnar með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Hnoðaðu öllu saman og bættu við örlitlu vatni ef þörf er á. Deigið hnoðast hratt og auðveldlega saman og tekur enga stund að búa það til.
 2. Flettu deigið út með kökukefli þar til það er 2-3 mm á þykkt. Ef það er erfitt að fletja það út gæti vantað vatn í það eða örlitla olíu til að mýkja það enn meira. Leggðu í eitt eða fleiri eldföst mót, ýttu létt niður og skerðu meðfram brúnum. Ég notaði lítil eldföst mót til að gera staka skammta af bökum, en það mætti líka setja þetta allt saman í eitt stórt fat. Það væri örugglega líka fallegt að nota lítil springform og taka bökurnar úr þeim fyrir framreiðslu og koma fyrir á diski.
 3. Þegar deigið er komið í mótið þá er ekkert eftir nema að stinga í það hér og þar með gaffli og stinga inn í 180 gráðu heitan ofn í rúman hálftíma. Ég vil forbaka skelina þetta lengi til þess að hún verði stökk og gegnbökuð. Annars er hætt við að fyllingin gegnbleyti hana. Hér notaði ég lítið Mixtur mót úr Ikea sem er 15×15 cm að stærð og það passaði fullkomlega.

 

Fyllingin:

 1. Skerðu kartöfluna í mjög smáa teninga, u.þ.b. 1/2 cm á hverja hlið, skalottlaukinn í sneiðar og brjóttu brokkolíið í pínulítil blóm.
 2. Fyllingin inniheldur einungis þessi fjögur hráefni en treystu mér – þetta þarf einfaldlega ekki að vera neitt flóknara en þetta. Sætu kartöfluteningarnir fara fyrstir ofan í og fylla bökuna u.þ.b. að einum þriðja til helmings. Næst eru það nokkrar skeiðar af pizzasósunni eða þar til kartöflurnar eru að mestu þaktar sósu. Þar ofan á skalottlaukurinn og síðast brokkolí.
 3. Það má í raun velja hvaða pasta- eða pizzasósu sem er og um að gera að prófa mismunandi sósur.
 4. Til að setja punktinn yfir i-ið er fallegt að fletja út deigafganga í u.þ.b. 1 mm þykkt og leggja yfir bökuna áður en hún fer aftur inn í ofn í 20-30 mínútur en það má líka sleppa því eða loka henni alveg með deigi, allt eftir óskum.

Bakan er loks borin fram með salati og næringarríku hvítlaukssósunni góðu sem fullkomnar bragðið með mjúkri og rjómakenndri áferð á móti krydduðu tómatbragði bökunnar. Kartöflurnar ættu að vera al dente og bökuskelin stökk. Dásamlegur réttur stútfullur af næringu og heilnæmum hráefnum.