Næturgrauturinn næringarríki

Næturgrauturinn næringarríki

Stundum þegar ég er í stuði á kvöldin hendi ég saman dásamlegum graut sem fær að malla sig sjálfur inni í ísskáp yfir nóttina.

Útkoman er undantekningarlaust ljúffeng og það er engin uppskrift. Galdurinn er að nota grófasta haframjöl sem þið komið höndum yfir, setja það í skál ásamt vökva að eigin vali í hlutföllunum 1:2 (hafrar einn hluti, vökvi tveir hlutar). Svo er bara að láta innihald skápanna og hugmyndaflugið ráða framhaldinu.

Grautur morgundagsins hjá mér inniheldur hafra og haframjólk, bláber, graskersfræ, möndlur, goji ber og kakónibbur. Ég hef annars prófað allar mögulegar tegundir af fræjum, hnetum og berjum, og ýmsan vökva allt frá eplasafa upp í kókosmjólk. Klikkar aldrei.

Þetta er líka snilldar nesti sem ég hef tekið með mér í ótrúlegustu leiðangra, m.a. í flugferðir. Þá er öllu blandað saman í box, geymt í handfarangri og eplasafa svo hellt út í þegar hungrið segir til sín. Látið standa í 10-30 mínútur og borðað með bestu lyst.

Næturgraut má gera úr ýmiss konar hráefnum en það er auðvelt að byrja á höfrum og vökva og bæta svo við öllum uppáhalds hráefnunum. Þessi er minn allra uppáhalds!

Hráefni

  • 1 dl grófar hafraflögur
  • 2 dl möndlumjólk
  • Handfylli af bláberjum
  • 1 msk goji ber
  • 1 msk kakónibbur
  • 2 msk graskersfræ
  • Nokkrar hýðislausar möndlur
  • 1 tsk hreint vanilluduft

Leiðbeiningar

  1. Öllu blandað saman í skál eða nestisbox og stungið í ísskáp.

Mér finnst þessi blanda fullkomin og ég nota frosin, stór bláber sem verða alltaf ómótstæðilega sæt og safarík eftir nóttina. Í stað haframjólkur má líka nota möndlumjólk með góðum árangri, hún gefur aðeins meira og öðruvísi bragð. Prófaðu báðar útgáfur og þróaðu svo þinn eigin næturgraut!