Meiri hollusta fyrir minni pening

Meiri hollusta fyrir minni pening

Ólíkt því sem mætti stundum halda þarf enginn að lifa á chia fræjum, grænkáli og lífrænt ræktuðum goji berjum alla daga til að bæta og viðhalda góðri heilsu. Ég veit að mikið er fjallað um kosti dýrra og framandi hráefna – ég er sjálf mikill aðdáandi ýmissa heilsutengdra nýjunga og nota oft skrítin hráefni í uppskriftirnar mínar. Það er auðvitað gaman að þreifa sig áfram og prófa eitthvað alveg nýtt en stundum gleymist alveg hvað margur hversdagslegur matur getur líka verið virkilega næringarríkur og uppbyggjandi.

Ég heyri mikið frá fólki að það sem standi helst í vegi fyrir aukinni hollustu sé hátt verð heilsuvara og það er mjög skiljanlegt að fólk staldri við þegar holli valkosturinn er jafnvel tugum prósentum dýrari en sá hefðbundni. Það er auðvelt að sjá fyrir sér að matarreikningurinn sé á leiðinni að tvöfaldast og breyta þar af leiðandi litlu eða engu.

Það væri óskandi að allir hefðu efni á að borða eingöngu lífrænt og að allir hefðu tíma til að elda næringarríkan mat frá grunni. Þar sem það er ekki algeng staða langar mig að fara yfir nokkur atriði sem vonandi auðvelda þér að auka hollustu og næringu strax í dag! Láttu ekkert aftra þér í að gera jákvæðar breytingar strax. Margir vilja bíða eftir því að hafa efni á ákveðnum vörum, hefja nýjan lífsstíl á einhverju námskeiði, bíða eftir að andinn komi yfir þá eða finnst ekki taka því að breyta neinum venjum ef ekki er hægt að umbylta öllu í einu. Þetta er ekki allsherjar lífsstílsbreyting og þú þarft ekki að stefna að fullkomnun, gerðu bara eina litla breytingu í dag og aðra í næstu viku. Þetta kemur allt.

  1. Ódýrasta heilsufæðið í búðinni er líklega ódýrara að meðaltali en sá matur sem þú kaupir venjulega. Rótargrænmeti, baunir, hýðishrísgrjón, margir ávextir og grófir hafrar eru dæmi um mjög ódýran og bráðhollan mat. Berðu saman kílóverðið á þessu og þeim mat sem þú kaupir venjulega! Þú þarft ekki einu sinni að fara út í uppskriftasöfnun eða heljarinnar rannsóknarvinnu til að nýta þér svona hráefni, það er hægt að byrja á að nota margt af þessu sem meðlæti og til að drýgja þinn venjulega mat.
  2. Ef þú hefur ekki prófað baunir þá skaltu gefa þeim tækifæri. Þær eru trefja- og próteinríkar, fljótlegar og seðjandi Þú þarft ekkert að hugsa um að leggja í bleyti og sjóða í marga klukkutíma. Ég kaupi t.d. krukku af lífrænum kjúklingabaunum frá Himneskri hollustu á um 250 krónur. Niðursoðnar „ólífrænar“ kjúklingabaunir kosta innan við 200 kr. Þær má nota á ýmsa vegu en einfaldast er að hella vatninu af, skola vel í sigti og blanda svo út í allt mögulegt. Þær eru t.d. ljúffengar í súpur og salöt, pottrétti og jafnvel bakaðar einar sér með góðu kryddi þar til þær verða dálítið stökkar. Ég hef stundum notað þær út í grænmetissúpur, steikt þær með rótargrænmeti og lauk, kryddað vel og sett í blandara með grænmetissoði eða kókosmjólk. Þá er komin ljómandi fín „rjómalöguð“ grænmetissúpa!
  3. Aðrar sniðugar baunir eru t.d. svartar baunir, pinto baunir, aduki baunir og hvítar cannellini baunir sem fást líka allar niðursoðnar og tilbúnar til neyslu. Þær má allar nota á svipaðan hátt og kjúklingabaunir, eru virkilega næringarríkar og drýgja nánast hvaða máltíð sem er. Rauðar linsubaunir eru öðruvísi að því leyti að þær er best að kaupa þurrkaðar í pokum, t.d. frá Sólgæti, og setja beint út í rétti. Það er flott að setja lófafylli af rauðum linsubaunum út í súpu og láta malla í svona korter. Þá þenjast þær út og gera súpuna matarmeiri. Kosturinn við baunir að þessar næringarbombur eru flestar mjög bragðlitlar og því er hægt að láta önnur hráefni og krydd stjórna ferðinni á meðan baunirnar gegna seðjandi, próteingefandi hlutverki sínu.
  4. Kartöflur, rófur, gulrætur, sellerírót og sætar kartöflur eru mjög ódýr hráefni sem auðvelt er að matreiða. Það má skera það í sneiðar, skífur, lengjur eða teninga og baka í ofni eða malla á pönnu með einhverju spennandi góðgæti. Kókosmjólk, sætar kartöflur og karrý eru t.d. alltaf grunnur að einhverju spennandi og ekki gleyma svörtum, nýmöluðum pipar í restina. Uppáhalds rótargrænmetis-„rétturinn“ minn eru sætar kartöflur í þunnum sneiðum sem vættar eru með sítrónusafa og salti stráð yfir – svo bakaðar í 10-15 mínútur eða þar til þær byrja að brúnast. Gæti alveg lifað á þeim.
  5. Hýðishrísgrjón eru annað dæmi um ódýran, seðjandi heilsumat. Mörgum finnst vesen að þurfa að sjóða þau í langan tíma en þau eru tvímælalaust biðarinnar virði. Mér finnst best að nota víða, þykkbotna pönnu til að ná jöfnu hitastigi hratt. Ég skola hrísgrjónin og set á pönnuna ásamt ísköldu vatni. Hlutföllin eru 1 á móti 2, þ.e. 1 dl af hrísgrjónum kallar á 2 dl af vatni (það borgar sig að mæla þetta nákvæmlega). Ég stilli svo helluna á ca 1/3 af fullum hita, set lokið á og læt þetta alveg eiga sig í u.þ.b. 45 mínútur. Það tók nokkrar tilraunir í upphafi að fá góða tilfinningu fyrir þessu en núna fæ ég alltaf fullkomlega soðin, létt og laus hrísgrjón með þessari aðferð. Þau geta verið meðlæti ein og sér eða farið út í einhvern spennandi pottrétt – t.d. með rótargrænmeti, kókosmjólk og karrý! Svo má líka að skera ferskt grænmeti út á, kreista sítrónu yfir allt og borða sem frískandi hrísgrjónasalat. Stundum set ég grænmetistening út í suðuvatnið ef ég ætla að nota hrísgjrónin sem grunn í slíkt salat og þá verður það enn betra á bragðið.
  6. Ferskt spínat og grænkál er frekar dýrt og skammlíft hráefni en það er hægt að kaupa þetta næringarríka grænmeti frosið í kúlum fyrir u.þ.b. 400-500 krónur kílóið. Það er ekki slæmt að eiga þetta alltaf til taks í frystinum og annað hvort bæta út í heita rétti á síðustu mínútum suðutímans eða nota í stað klaka út í smoothie til að kæla og bæta næringargildið. Það er fínt að nota 2-5 kúlur út í hvern drykk, eftir því hversu „grænt“ bragðið má vera.
  7. Síðast en ekki síst skaltu nota matinn þinn. Þetta hljómar eins og sjálfsagður hlutur en ég veit það mjög vel hversu auðvelt er að gleyma pokum af framandi hráefni aftast í eldhússkápunum og nota það aldrei aftur. Þegar ég var að byrja mína hollustuvegferð gerði ég allt of oft þau mistök að henda öllu sem ekki stóðst viðmiðanir hverju sinni til þess að kaupa heilu bílfarmana af hollu og skrítnu hráefni. Raðaði því stolt í skápana og vissi svo ekkert í hvorn fótinn ég ætti að stíga. Seinna áttaði ég mig á því að betra væri að kaupa bara eina nýjung í einu og virkilega læra og finna út úr því hvernig ég gæti nýtt það hráefni sem best. Ég nota þessa aðferð enn í dag þegar ég er að prófa eitthvað nýtt og spennandi, alveg sekk mér ofan í allan þann fróðleik sem ég finn og prófa hráefnið á ýmsa vegu. Ég hvet þig til þess að kíkja í skápana, finna það sem er á leiðinni að rykfalla og gera þitt besta til að nýta það. Þér er velkomið að senda mér línu ef þú vilt fá aðstoð með slíkar vangaveltur, það er aldrei að vita nema ég hafi staðið í akkúrat sömu sporum með sama hráefni!


Ég vona svo sannarlega að þú getir nýtt þér eitthvað af þessum ráðum eða að þau veiti þér innblástur til að prófa eitthvað nýtt í rólegheitunum. Þú mátt gjarnan svara þessum pósti til að láta mig vita hvort svona ráðleggingar gagnist þér og líka ef þær gera það ekki. Mig langar að hjálpa þér og öðrum áhugasömum um hollustu að komast skrefinu lengra svo allar hugmyndir að efnistökum eru einnig hjartanlega velkomnar.