Ofurstykki að mínu skapi

Ofurstykki að mínu skapi

Ég er nýbúin að uppgötva þetta næringarstykki, SuperBar. Almennt er ég á því að borða sem mest af ferskum og hreinum mat en sem minnst af tilbúnum og verksmiðjuframleiddum vörum. Ég kann þó vel að meta góðar lausnir við skyndilegu hungri þegar mikið er að gera og gríp þá stundum í eitthvað tilbúið.

Það er enginn skortur á því sem ég vil kalla próteinbætt sælgæti, þessar dæmigerðu orkustangir sem eru troðfullar af mikið unnu hráefni og próteini sem á að gera vöruna að máltíð. Oft er þó lítið af annarri næringu í slíkum vörum og þær eru gjarnan alveg dísætar.

SuperBar er öðruvísi að því leyti að það er bæði lífrænt og 90% hráfæði, en það sem mér finnst skipta mestu máli er að það er búið til úr alvöru mat. Kaldpressað grænmeti, ber, fræ, kínóa og margt fleira sem veitir líkamanum fjölbreytta hágæða næringu.

Ég fæ mér allavega eina svona dúllu af og til með góðri samvisku þegar ég er svöng á ferðinni eða fæ löngun í eitthvað óhollara. Það er líka gott að eiga svona stykki á skrifborðinu eða í handfarangrinum þegar haldið er í ferðalög.