Oumph! með rjómakenndri engifer- & möndlusósu

Oumph! með rjómakenndri engifer- & möndlusósu

Þessi réttur er svolítill lúxusmatur því hann er í fyrsta lagi alveg dásamlega bragðgóður en í hann nota ég líka nokkur hráefni sem eru í dýrari kantinum. Ég mæli með þessum fyrir notalegan dinner um helgi, í góðum félagsskap þegar þú hefur góðan tíma til að njóta. Matargerðin er hins vegar einföld og fljótleg!
Pure Oumph!Aðalhráefnið í þennan rétt er hið frábæra Oumph! sem er nýkomið í sölu hér á landi. Þetta er alveg tandurhreint prótein, unnið á einhvern ótrúlega töfrandi hátt þannig að áferðin verður alveg eins og kjúklingur – allavega eins og ég man eftir honum þegar ég borðaði hann síðast fyrir mörgum árum síðan! Framleiðendur vörunnar höfðu það að markmiði að þróa nýjan valkost í stað kjöts sem hefði margfalt minni skaðleg áhrif á umhverfi og náttúru. Þetta er því frábær matur fyrir alla þá sem kjósa að sneiða hjá dýraafurðum eða draga úr neyslu þeirra, hvort sem það er af dýraverndar-, umhverfisverndar- eða heilsufarsástæðum. Ókryddað Oumph! inniheldur ekkert nema vatn, hreint sojaprótein úr óerfðabreyttum baunum og örlítið salt. Forkrydduðu tegundirnar eru svo galdraðar á næsta stig með lífrænum kryddum, en í þennan rétt nota ég hreinu útgáfuna sem heitir Pure Chunk. Þessi vara fæst frosin í verslunum Krónunnar, Hagkaups, Fræinu Fjarðarkaup, Gló Fákafeni og Melabúðinni.

Ég hef komist að því að lykilatriðið í Oumph! matargerð er að  hita það bara í nokkrar mínútur. Fyrst fannst mér eins og ég þyrfti að steikja þetta eða baka í langan tíma, sennilega af því að þetta minnir svo á kjúkling, en bitarnir eru algjörlega tilbúnir um leið og þeir hafa hitnað í gegn og eru langbestir og safaríkastir þannig.

Þennan rétt er auðvelt að útfæra á ýmsa vegu, t.d. með því að nota aðrar tegundir grænmetis eða bæta í hann soðnum baunum eða kínóa.

Athugaðu að fersku sykurbaunirnar fást í grænmetisborðum verslana, þær eru oftast í bökkum, grænir og ílangir belgir með litlum kringlóttum baunum inni í. Belgurinn er ætur svo ég sker hvert heilt stykki í svona 4-5 búta og bæti út í ýmsa rétti.

Hvítt möndlumauk er dýr vara en gerir ótrúlega mikið fyrir þennan rétt. Sósan verður mjög þykk og rjómakennd, loðir vel við bitana og bragðið af öllum kryddunum blandast svo fullkomlega saman í þessum grunni. Ódýrari valkostur er kasjúhnetumauk en svo má alveg þykkja sósuna með mjöli og e.t.v. bæta þá líka í hana möndlurjóma á móti möndlumjólkinni.

Ég nota Isola sykurlausa möndlumjólk sem mér finnst alveg fullkomin á bragðið. Sumar aðrar tegundir eru með dálitlum marsipankeimi sem ég finn ekki í Isola mjólkinni. Það gæti því haft einhver áhrif á útkomuna hvaða möndlumjólk er notuð.

Uppskriftin dugar fyrir tvo til fjóra, eftir því hvernig meðlæti er borið fram með réttinum og hversu mikið.

Hráefni

 • 1 dl vatn
 • 1 tsk Rapunzel grænmetiskraftur í dufti
 • 4 stk skalottlaukur
 • 3-4 hvítlauksrif
 • 1/2 rautt chili
 • 15 gr engiferrót
 • 2-3 dl ósæt möndlumjólk
 • 4 msk hvítt möndlumauk
 • 1 msk Patak’s milt karrýmauk
 • 1 poki Oumph! Chunks ókryddaðir
 • Rífleg handfylli af ferskum sykurbaunum
 • 1 stór gulrót
 • Handfylli af brokkolí
 • 1 dl kasjúhnetur
 • Salt og pipar eftir smekk

Leiðbeiningar

 1. Láttu Oumph! þiðna ef tími gefst.
 2. Ristaðu kasjúhneturnar á þurri, heitri pönnu. Veltu þeim stöðugt og taktu þær af um leið og þær byrja að brúnast. Geymdu þær svo til hliðar.
 3. Hitaðu vatnið og grænmetiskraftinn á pönnu, saxaðu skalottlauk og hvítlauk og bættu út á pönnuna. Láttu krauma í nokkrar mínútur þar til laukurinn er orðinn nokkuð glær. Bættu við smá vatni ef þörf er á.
 4. Saxaðu chili og engifer og bættu út á pönnuna ásamt karrýmaukinu. Hrærðu vel í og láttu hitna í 1-2 mínútur.
 5. Helltu möndlumjólk út í og hrærðu möndlumaukinu vel saman við.
 6. Þegar sósan er orðin vel samanblönduð helltu þá Oump! út í hana og hrærðu vel. Láttu það hitna vel í gegn í ca 4-5 mínútur og smakkaðu svo til með salti og nýmöluðum svörtum pipar.
 7. Skerðu snjóbaunirnar í bita, brokkolíið í lítil blóm og notaðu flysjara til að rífa gulrótina í breiðar, þunnar sneiðar. Hrærðu grænmetinu saman við allt, taktu pönnuna af hitanum og láttu standa í nokkrar mínútur áður en þú stráir kasjúhnetunum yfir og berð réttinn fram.