Próteinríki morgunþeytingurinn

Próteinríki morgunþeytingurinn

Þennan drykk fæ ég mér í morgunmat flesta morgna og mér líður alltaf jafn vel af honum. Oft set ég reyndar aðeins meiri mjólk því mér finnst betra að hafa þeytingana mína þunnfljótandi og stundum set ég aðrar tegundir af hnetum og fræjum eða bæti jafnvel við.

Hörfræin eru ein besta uppspretta omega3 í jurtaríkinu og með því að láta þau liggja í bleyti yfir nótt auðvelda ég bæði blandaranum að mauka þau og ég hef líka lesið að það hjálpi líkamanum að taka upp næringuna úr fræjunum. Ég legg mig fram um að borða hörfræ á hverjum degi til að tryggja mér góðan skammt af þessum lífsnauðsynlegu fitusýrum.

Grænkálið er einstaklega ríkt af kalki og með því að setja eins mikið af því og ég get torgað í morgunmatinn get ég verið alveg áhyggjulaus hvað það steinefni varðar. Brasilíuhnetan er svo rík af seleni þannig að í einu glasi tryggi ég mér fjöldann allan af steinefnum og ómótstæðilegri næringu beint frá jörðinni.

Próteinduftið er ekki nauðsynlegt en ég hef lært að meta kosti þess að taka inn smá prótein flesta morgna einfaldlega vegna þess að ég hef tilhneigingu til að borða ekki nógu mikinn mat yfir daginn sökum anna. Það gefur líka sætt vanillubragð sem mér finnst passa vel með þessum drykk. Sunwarrior próteinið er tandurhreint, vegan og án aukaefna en það er sætt með stevíu. Það tekur smá tíma að venjast „próteinbragðinu“ en smám saman fer maður að sækjast eftir því.

Ef þig langar ekki að taka inn prótein í dufti er auðvelt að setja t.d. banana og hreina vanillu í staðinn til að vega upp á móti sætunni sem annars dettur út.

Hráefni

Grunnur:

 • 2-3 dl sykurlaus möndlumjólk
 • 1 mæliskeið Sunwarrior vanilluprótein (ég nota Warrior Blend)
 • 1 msk hörfræ sem hafa legið í bleyti yfir nótt
 • 1-2 brasilíuhnetur
 • 1-3 stilkar grænkál (stöngullinn fjarlægður)
 • 1/2 – 1 lífræn pera eða handfylli frosin bláber

Viðbót ef þú vilt meiri virkni:

 • 1/2 -1 tsk kanill
 • 1/2 – 1 tsk túrmerik
 • 1 hylki Now 50 billion gerlar

Leiðbeiningar

 1. Allt blandað rækilega saman þar til vökvinn er silkimjúkur og kekkjalaus
 2. Gerlunum hrært út í eftir á eða hylkið gleypt með.

Voilá! Ljúffengur og nærandi morgunmatur :