Rjómakennd blómkáls- og sætkartöflusúpa

Rjómakennd blómkáls- og sætkartöflusúpa

Súpur geta verið auðveld leið til að auka grænmetisneyslu barna og fullorðinna á einfaldan og þægilegan hátt en þeirra stærsti kostur er oft hversu þægilegt er að matreiða þær. Þessa silkimjúku og ljúffengu súpu er t.a.m. einstaklega þægilegt að gera eftir langan vinnudag þar sem undirbúningstími er sáralítill og hráefnin sjá bara um sig sjálf í ofninum. Með því að baka grænmetið í tamarivökva kemur meiri dýpt í bragðið þar sem það brúnast örlítið og verður því ekki eins sætt og ef það er soðið í potti.

Þessa má geyma í 2-3 daga í lokuðu íláti í ísskáp og nota sem nesti, borða með soðnu kínóa eða góðu brauði.

Timian hefur milt en ákveðið bragð sem ég kann vel að meta. Það rennur e.t.v. ekki eins ljúflega niður hjá öllum og ekki er víst að börn kunni vel að meta það. Prófaðu að gera súpuna án timian kryddsins og smakkaðu svo áður en þú bætir því við. Kannski finnst þér betra að nota eitthvað allt annað krydd og þá er um að gera að prófa!

Hráefni

 • 1 Blómkálshaus
 • 500 gr sætar kartöflur
 • 4 dl vatn
 • 1/2 dl tamari sósa
 • 1 dós kókosmjólk
 • 1 Rapunzel grænmetisteningur
 • 1-2 tsk timian, þurrkað
 • Nýmalaður svartur pipar

Leiðbeiningar

 1. Þvoðu og skerðu sætar kartöflur í stóra bita, slepptu því að flysja þær ef þær eru lífrænar.
 2. Brytjaðu blómkál í stóra bita líka og settu allt saman í stórt, eldfast mót. Blandaðu saman vatni og tamarisósu og helltu yfir allt saman.
 3. Hitaðu í 160°C heitum ofni í 20 mínútur eða þar til grænmetið er mjúkt og létt brúnað. Það er gott að hræra í fatinu 2-3 sinnum á bökunartímanum og ausa vökvanum yfir.
 4. Settu kókosmjólk, grænmetistening og 1 tsk af timian í blandara eða matvinnsluvél og grænmetið ásamt soðinu saman við.
  Passaðu að láta það kólna fyrst ef blandarinn þolir ekki heita vinnslu.
 5. Maukaðu allt vel saman, smakkaðu til með timian og svörtum pipar í restina og ef þú maukaðir hráefnin köld er auðvelt að hita súpuna aftur í potti, annars er hún tilbúin til framreiðslu.

Þessi er dásamleg með alfa alfa spírum og graskersfræjum.