Sætkartöflusalat

Sætkartöflusalat

Grænkál er grænmeti sem getur líka tekið tíma að læra að meta. Ef þér líst ekki á það geturðu prófað að hafa minna af því, blanda því saman við annað grænt blaðgrænmeti eða skipt því út fyrir spínat eða mildari salatblöndur úr poka. Þú getur hins vegar treyst því að grænkálið venst ekki bara heldur verða margir sólgnir í það því oftar sem þeir prófa það. Þetta salat er frekar bragðmilt en hikaðu ekki við að breyta til og prófa aðrar útfærslur. Perur eru t.d. frábærar í stað mangós og það getur verið gott að bæta við ferskum chili eða öðruvísi og meiri lauk. Það má skera sætu kartöfluna í sneiðar og velta upp úr nýkreistum sítrónusafa og strá yfir þær himalayasalti fyrir bökun og ég verð að nefna að fersk bláber gera gott salat ALLTAF betra. Svona mætti lengi telja. Láttu hugmyndaflugið ráða!

Ingredients

 • 200 gr sæt kartafla
 • 1 msk tamarisósa
 • 1 msk eplaedik
 • Eitt búnt af grænkáli
 • Nokkrir kirsuberjatómatar
 • 1/2 rauð paprika
 • Hálft mangó
 • 2-3 stilkar af vorlauk
 • Handfylli af alfa alfa spírum
 • ½ dl aduki baunir
 • Lítil handfylli af pistasíuhnetum

Directions

 1. Skerðu sætu kartöfluna í litla bita og veltu henni upp samanblandaðri tamarisósu og eplaediki (það má baka þær eins og þær koma fyrir ef þér líst ekki á vökvann).
 2. Veiddu kartöflurnar upp úr og bakaðu við 180 gráður í 10-15 mínútur þar til bitarnir verða mjúkir.
 3. Rífðu grænkálið af stilkunum og svo í hæfilega stóra bita, skerðu tómatana í bita og veltu þeim saman við grænkálið, hnoðaðu það jafnvel saman með höndunum til að mýkja kálið og nýta tómatana sem hálfgerða dressingu.
 4. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar er gott að velta þeim aftur upp úr vökvanum sem varð eftir, taka þær aftur upp úr og blanda baunum, mangó og grænmeti saman við.
 5. Blandaðu öllu saman við kálið og endaðu á að setja alfa alfa spírurnar með.