Salat í sparifötum

Salat í sparifötum

Þó ég sé eldheitur stuðningsmaður hreinna og uppbyggjandi salatmáltíða skal ég vera fyrst til að viðurkenna að máltíðin sjálf getur verið þolinmæðisverk. Þess vegna kýs ég oft að flýta fyrir mér með því að pakka salatinu saman í tortillur, nori blöð eða hrísgrjónapappír.

Síðastnefndi kosturinn er í sérstöku uppáhaldi hjá mér því hrísgrjónapappír er alveg bragðlaus og þjónar því þeim eina tilgangi að knúsa salatið mitt saman í handhægan og næringarríkan vöndul. Þú einfaldlega grípur eitt hrísgrjónablað, dýfir því rétt sem snöggvast ofan í kalt vatn, leggur á trébretti eða bambusmottu og raðar öllu því sem hugurinn girnist ofan á. Vefur öllu saman eins og burrito og þú ert komin(n) með dásamlega máltíð sem gleður bæði augað og bragðlaukana.

Salatdressinguna notarðu svo einfaldlega eins og ídýfu! Tilvalið í kvöldmatinn eða nestisboxið.

Í salatvefjur má setja hvað sem er og er upplagt að nota þær til að klára afganga úr grænmetisskúffunni. Mér finnst alltaf gott að hafa vel af grænu blaðgrænmeti eins og grænkáli eða spínati ásamt ýmiss konar sætum og stökkum hráefnum. Ávextir og ber eru frábærir með þessu græna og hráar pistasíuhnetur eða baunaspírur gefa bitanum ákveðið „kröns“ sem er svo gott.

Hér fyrir neðan má sjá mína uppáhalds hráefnablöndu.

Hráefni

Í vefjurnar:

 • Hrísgrjónapappír
 • Grænkál
 • Mangó
 • Bláber
 • Baunaspírur frá EcoSpíru
 • Alfaspírur frá EcoSpíru

Í sósuna:

 • Hreint hnetusmjör
 • Sojasósa
 • Hlynsýróp
 • Chiliflögur
 • Vatn til að þynna

Leiðbeiningar

 1. Skerðu niður þau hráefni sem þú vilt nota í vefjuna þína.
 2. Taktu eitt blað af hrísgrjónapappír og bleyttu það vel undir krana eða í stórri skál.
 3. Leggðu það á flöt þar sem auðvelt er að ná brúnunum upp – mér finnst gott að nota bambusmottu.
 4. Raðaðu hráefninu þvert á pappírinn miðjan.
 5. Taktu í jaðarinn á hvorum enda hráefnalínunnar fyrir sig og leggðu yfir enda hennar. Rúllaðu svo upp eins og þú myndir gera með burrito.
 6. Sósuna er svo gott að blanda með töfrasprota en hlutföllin ráðast alfarið af smekk. Hnetusmjörið er grunnurinn, sojasósan breytir því úr áleggi í sósu, hlynsýrópið gerir hana sætari og chiliflögurnar gefa þessu öllu saman styrkleika og dýpt. Vatnið notar þú svo til að ná fram þeirri þykkt sem þér finnst best. Sumum finnst gott að hafa sósuna þykka og geta jafnvel smurt henni inn í vefjuna – aðrir vilja hafa hana fljótandi og dýfa ofan í.

Kíktu á myndbandið hér fyrir neðan til að sjá krúttið hana Megan Elisabeth útbúa svona sparilegar salatrúllur.