Smápizzur með hummus og grænkálssalati

Smápizzur með hummus og grænkálssalati

Ég er lítið fyrir hefðbundnar pizzur en er þeim mun spenntari fyrir óhefðbundnari útgáfum. Sennilega hef ég aldrei gert sömu pizzuna tvisvar en botninn er alltaf eins og er algjört æði. Stökkur, þunnur og passlega bragðmikill til að bera uppi spennandi bragðtegundir en nógu hlutlaus til að næstum því hvað sem er passar vel með honum. Mér finnst oft gott að baka hluta af álegginu en bæta svo ofan á pizzuna brakandi fersku grænmeti og/eða ávöxtum eftir bökun.Hér er ein nýleg samsetning en ég mun án efa koma með ýmsar aðrar útgáfur síðar.

Pizzabotninn stendur alltaf fyrir sínu og ég hef notað hann ýmist í hefðbunda pizzubotna, litlar smápizzur eins og þessar, botn í pizzabökur eða sem eins konar „kex“ með pottréttum. Hummusinn virkar með nánast hverju sem er, jafnvel borðaður einn og sér með skeið! Frábær ofan á brauð, sem ídýfa með grænmeti, sósa í vefjur eða grunnur í bollur og buff. Grænkálssalatið er svo með mjög sveigjanleg hlutföll hráefna og má aðlaga að smekk og innihaldi skápa hverju sinni.

Hráefni


Pizzabotn:

 • 250 gr grófmalað spelt
 • 1 krukka hvítar baunir
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft
 • Vatn eftir þörfum

 

Hummus:

 • 1 krukka kjúklingabaunir
 • 1 msk tahini
 • 1-2 hvítlauksgeirar
 • 2 tsk reykt paprikukrydd
 • 2 msk næringarger
 • Safi úr hálfu lime

 

Grænkálssalat

 • 1 poki grænkál
 • Handfylli sólþurrkaðir tómatar
 • 2-3 hvítlauksgeirar
 • Safi úr hálfri sítrónu
 • Handfylli af hráum pistasíuhnetum
 • Nokkrar þurrkaðar döðlur
 • Nokkrir skalottlaukar

Leiðbeiningar

Botninn:

 1. Maukaðu hvítu baunirnar og hnoðaðu þær saman við þurrefnin. Bættu vatni við eftir þörfum (stundum þarf mikið vatn og stundum ekki neitt).
 2. Rúllaðu deigið út með kökukefli, gataðu með gaffli og forbakaðu það við 180 gráður þar til brúnirnar eru stökkar. Þetta á að vera þunnur botn og ef það er óbærilega erfitt að fletja deigið gæti vantað meira vatn í það en svo má auðvitað mýkja það með smáræði af lífrænni olíu.
 3. Lagaðu botninn hvernig sem þér dettur í hug, hvort sem er í mörg lítil stykki eða eitt stærra.

 

Hummus:

 1. Þú býrð hummusinn til í matvinnsluvél með því einfaldlega að blanda öllum hráefnunum vel saman.
 2. Þegar botninn er bakaður smyrðu svo u.þ.b. hálfs sentimetra lagi af hummus yfir en ef einhver afgangur verður geymist hann í loftþéttu íláti í ísskáp í nokkra daga (nema þú borðir hann fyrst!).
 3. Í stað þess að setja skalottlaukinn út í grænkálssalatið skar ég hann í sneiðar og stráði ríflega yfir hummusinn. Skalottlaukur er frekar sætur og dásamlegur eftir að hann hefur verið bakaður svo hér er meira = betra.
 4. Þú bakar svo pizzuna með hummus í nokkrar mínútur eða þar til hann er rétt farinn að brúnast á jöðrunum.

 

Grænkálssalat:

 1. Maukaðu sólþurrkaða tómata, hvítlauk, hnetur og sítrónusafa í matvinnsluvél.
 2. Skolaðu grænkálið og rífðu það af stilkunum áður en þú rífur það niður í smærri bita.
 3. Blandaðu saman grænkáli og mauki með því að hnoða þetta allt saman rækilega með höndunum. Það mýkir kálið og gerir áferðina á því ómótstæðilega.
 4. Settu salatið í lokin á bakaðan botninn og stráðu söxuðum döðlum yfir ásamt pistasíuhnetum til skrauts.

Prófaðu svo alls konar útgáfur með þínu uppáhalds áleggi!