Súkkulaði chia grautur

Súkkulaði chia grautur

Chia grautar eru einstaklega vinsælir um þessar mundir, ýmist sem morgunmatur, eftirréttur eða millimál. Þessi skemmtilegu fræ eru auðvitað einstaklega næringarrík og hafa þann eiginleika að þenjast út og gefa frá sér þykkan vökva sem breytir vökva í hálfgerðan búðing. Margir bæta þeim t.d. í þeytinga eða hræra út í hræragraut á hverjum degi til að fá úr þeim omega fitusýrur, kalk og fleiri næringarefni sem þau geyma í miklu magni.

Skammturinn hér er fyrir einn en það er vel hægt að gera fleiri skammta í einu og geyma í ísskáp í a.m.k. 2-3 daga.

Þennan graut er ótrúlega fljótlegt að gera, það tekur ekki nema 1-2 mínútur að henda honum saman og svo tekur biðtíminn við. Hann er tilbúinn eftir 15-20 mínútur, en þá eiga fræin að vera orðin útþanin og grauturinn orðinn þéttur. Ef þú vilt hafa hann sléttan eða finnst áferðin af fræjunum ekki góð þá er sniðugt að setja allt saman í blandara og mauka saman áður en hann er látinn standa. Þá kemur út úr þessu fínasti búðingur.

Grauturinn sjálfur er ekki mjög sætur en það má bæta í hann smá kókossykri eða erithrytoli að vild. Peran gefur hins vegar safaríkt og sætt bragð á móti sterku súkkulaðibragðinu og það má líka bæta við fleiri ávöxtum eftir smekk.

Hráefni

Grauturinn:

  • 2 msk chia fræ
  • 1,5 dl ósæt möndlumjólk
  • 1 msk hrákakó
  • 1 tsk maca duft
  • Himalayasalt á hnífsoddi

Naslið:

  • 1/2 – 1 lífræn pera
  • 1 msk kókosmjöl
  • 4 stk pecan hnetur

Leiðbeiningar

  1. Hrærðu öllu saman og láttu standa í 15-20 mínútur eða lengur (má gera daginn áður og geyma í ísskáp).
  2. Brjóttu svo hneturnar, skerðu peruna og blandaðu saman við grautinn ásamt kókosmjölinu.