Súkkulaði ganache kaka með karamellusósu

Súkkulaði ganache kaka með karamellusósu

Þegar tvö ár voru liðin frá því ég opnaði Facebook síðuna Hugmyndir að hollustu langaði mig að gera eitthvað öðruvísi í tilefni áfangans. Úr varð að ég tilkynnti um viðburð á Snapchat – óvissubakstur þar sem þátttakendur fengju aðgang að hráefnalista og svo kæmi ekki í ljós hvað yrði úr honum fyrr en í beinni útsendingu á Snapchat að morgni afmælisdagsins. Ég hellti mér í tilraunabakstur og einsetti mér að kakan yrði að vera óumdeilanlega ljúffeng fyrir hvern sem smakkaði, hún ætti að innihalda fá hráefni sem nýttust vel, hægt væri að fá allt í baksturinn í einni búðarferð – og helst ætti stór hluti hráefnanna að finnast í dæmigerðu eldhúsi. Kökugerðin átti jafnframt að vera auðveld fyrir hvern sem er og ekki krefjast dýrra tækja. Nú, og svo þurfti kakan að sjálfsögðu að geta staðið undir væntingum um hollustu. Hvað getur kona beðið um meira?!

Það tók nokkra daga og mikil heilabrot að fá þessi skilyrði öll til að ganga upp í einni köku en það tókst og útkoman er þessi dásamlega heilsubomba sem á erindi á hvaða veisluborð sem er. Tæknileg vandræði voru aðeins að þvælast fyrir á „útsendingardaginn“ en það kemur ekki að sök því fyrir vikið er allur galdurinn kominn í handhægt Youtube myndband sem styðjast má við í kökubakstri framtíðarinnar. Þetta er uppskrift sem ég mun nota aftur og aftur og vonandi munt þú njóta hennar líka.

Kakan er glútenlaus og vegan, þ.a.l. bæði eggja- og mjólkurlaus. Hana má auðveldlega gera líka án viðbætts sykurs með því að nota sykurlaust súkkulaði, t.d. dökkt Balance súkkulaði.

Hráefni

Fylling:

 • 2 dl kókosmjólk, rjóminn efst úr dósinni
 • 200 gr sæt kartafla
 • 100 gr dökkt súkkulaði

Botn:

 • 200 gr þurrkaðar döðlur
 • 75 gr pecan hnetur
 • 100 gr kókosmjöl
 • 1/4 tsk kanill
 • 1/4 tsk hreint vanilluduft
 • 2-3 msk kókosvatn úr dósinni

Karamellusósa:

 • Kókosmjólk, afgangurinn úr dósinni (þunni hlutinn)
 • 50 gr döðlur
 • Salt á hnífsoddi

Leiðbeiningar

 1. Hitaðu bakarofn í ca 160 gráður.
 2. Opnaðu kókosmjólkurdósina án þess að snúa henni eða hrista og skafðu þykka hlutann ofan af. Taktu 2 dl úr henni og ef þykki hlutinn nær ekki því umfangi bættu þá þunna vökvanum saman við þar til þú ert með 2 dl samtals. Helltu því í þykkbotna pott eða pönnu og hitaðu við mjög lágan hita en geymdu kókosvatnið sem eftir situr í dósinni.
 3. Rífðu sætu kartöfluna eins smátt og þú getur, settu hana út á pönnuna með kókosmjólkinni og láttu allt hitna dálítið, bara í 1-2 mínútur. Taktu svo af hellunni og brytjaðu súkkulaði yfir og láttu það bráðna í rólegheitunum. Láttu þetta svo kólna á meðan þú snýrð þér að botninum.
 4. Brytjaðu 200 gr af döðlum og leggðu þær á ofnplötu klædda bökunarpappír ásamt hnetunum, láttu hitna í ca 2-3 mínútur. Passaðu að þetta brenni ekki, hitinn er bara til að fá örlítið dýpra bragð í hráefnin. Hafðu þetta frekar of stutt í ofninum en of lengi.
 5. Bættu kókosmjölinu á ofnskúffuna með döðlunum og hnetunum, láttu allt hitna í 1-2 mínútur til viðbótar eða þar til þú sérð kókosmjölið byrja að brúnast og taktu þá strax út. Láttu kólna í smástund.
 6. Helltu svo döðlum, hnetum og kókosmjöli í matvinnsluvél eða blandara og myldu það niður í fíngerða blöndu. Passaðu að láta þetta kólna fyrst ef vélin þín þolir ekki heitt hráefni. Oft þarf að kveikja og slökkva nokkrum sinnum til skiptis og jafnvel getur verið gott að vinna bara með helminginn í einu. Bættu út í þetta 2-3 msk af kókosvatninu sem eftir var í dósinni ásamt kanil og vanillu. Það getur verið þægilegast að hnoða kryddunum og kókosvatninu saman við með höndunum í restina.
 7. Klæddu springform að innan með bökunarpappír og þrýstu hnetublöndunni í botninn. Það má líka nota eldfast mót eða hvernig skál sem er. Geymdu botninn í frysti á meðan þú klárar fyllinguna.
 8. Athugaðu hvort súkkulaðiblandan hafi kólnað nægilega áður en þú hellir henni í matvinnsluvél eða blandara. Sum tæki þola ekki heita vinnslu svo bíddu frekar lengur ef þú ert ekki viss. Láttu blönduna svo ganga í vélinni í allt að 2-3 mínútur svo hún verði alveg silkimjúk.
 9. Taktu botninn úr frysti og helltu súkkulaðifyllingunni yfir, láttu svo standa í ísskáp í minnst 2 klst eða þar til fyllingin er orðin nokkuð stíf.
 10. Á meðan er gott að gera karamellusósu til að hella yfir kökuna. Saxaðu 50 gr af döðlum og maukaðu þær rækilega með afganginum úr kókosmjólkurdósinni. Gott er að setja dálítið salt út í sósuna í lokin og svo má þykkja hana með því að hita hana í litlum potti og hræra vel í henni á meðan.
 11. Mér finnst flott að bera kökuna fram með karamellusósunni í sér könnu svo hægt sé að hella yfir hverja sneið fyrir sig en það má líka hella yfir alla kökuna ef sósan hefur verið soðin og látin þykkna vel .

Kókosmjólk er mjög breytilegt hráefni og því getur verið mikill munur á stífleika súkkulaðifyllingarinnar eftir því hversu mikið af rjóma var í dósinni og hversu harður hann er við stofuhita. Ef fyllingin stífnar ekki nóg getur þurft að frysta kökuna og taka hana út ca 10 mínútum fyrir framreiðslu. Það er líka upplagt að frysta hana í litlum sneiðum eða munnbitum og næla sér í einn bita þegar sælkerinn lætur á sér kræla enda er hún eins og fínasta ísterta í því formi.