Te – ég elska þig

Te – ég elska þig

Mín fyrstu kynni af te voru þegar ég var enn í fyrstu bekkjum grunnskóla og komst einn góðan veðurdag í Melrose‘s te og djúpt sykurkar hjá ömmu. Næstu árin greip ég hvert tækifæri til að fá mér sykur með melrósum. Það er – allt þar til ég gerðist fitukomplexaður unglingur, frétti að sykur væri ekki æskileg viðbót í te og fattaði hvað Melrose‘s væri ofboðslega vont á bragðið eitt og sér.

Um það bil áratug síðar þurfti ég að horfast í augu við að matarvenjur mínar væru allt annað en heilbrigðar og ofneysla ruslfæðis hafði farið úr böndunum. Ég lagðist í sjálfsvorkunn á öxl vinkonu sem þá nam grasalæknisfræði og hún gaf mér ráð sem reyndist mér vel og markaði upphaf nýs te-tímabils í mínu lífi. Samviskusamlega fylgdi ég leiðbeiningum sem fólust í því að fylla stálbrúsa af einum lítra sjóðandi vatns og bæta svo í það tveimur tepokum að eigin vali. Þetta lét ég svo bruggast í dágóða stund og hafði brúsann í seilingarfjarlægð yfir daginn þar til allt var búið úr honum.

Síðan þá hefur mikið te runnið til sjávar og ég hef sem betur fer náð mataræðinu í nýjar hæðir miðað við það sem áður var. Ég er hætt að drösla með mér tebrúsanum en á þó áfram í nánu sambandi við te og á með því rómantískar stundir með reglulegu millibili.

Uppskrift að hágæða terómans er eftirfarandi:

Þú þarft:

  • 1 þykkan, stóran leirbolla sem gott er að knúsa með báðum höndum. Ég mæli með Dinera.
  • 1 poka af ljúffengu, gjarnan lífrænu te að eigin vali sem knúsar magann innan frá, og hæfilegt magn af hreinu vatni.
  • 1 par af ljótum, of stórum, hlýjum sokkum til að knúsa tærnar
  • 1 þægilegan sófa eða stól, sæng eða teppi
  • 1 skammt af íslensku vetrarveðri sem ómar í fjarska

tesokkar

Aðferðin:

Þú byrjar á að sjóða 3-400 ml af vatni og nýtir tímann til að finna eftirlætis tebollann þinn og leggja tepokann ástúðlega í hann. Þegar vatnið sýður hellir þú bollann barmafullan og fylgist með teinu lita vatnið í stríðum straumum. Rektu nefið eins nálægt og hitinn leyfir og andaðu að þér ilminum.

Næsta skref er erfiðast. Þú þarft að leyfa teinu að kólna í drykkjarhæft hitastig, um eða rétt yfir 40 gráður. Notaðu tímann til að klæða þig í ljótu sokkana og koma þér fyrir í sófanum. Passaðu að gleyma ekki tebollanum inni í eldhúsi, það er vesen að þurfa að standa upp og skauta eftir honum í allt of stórum sokkum.

Loks kemur að því að þú getur dreypt á þessum dásamlega vökva sem oftar en ekki færir þér stórkostlega kaupaka á borð við andoxunarefni og jafnvel steinefni. Að auki hefur te oft ótrúlegustu áhrif á líkama og sál, ýmist slakandi, orkugefandi eða aðrar elskanlegar afleiðingar. Vertu ekkert að taka pokann upp úr, hann gerir síðasta sopann að æðislegri bragðbombu.

te (1)