Nærandi og ljúffeng sveppasúpa

Nærandi og ljúffeng sveppasúpa

Þessi dásamlega súpa er ein af allra fyrstu uppskriftunum sem ég þróaði sjálf en hef aldrei áður birt. Það var fyrir um 15 árum sem ég hætti að kaupa pakkasúpur og vildi fara að auka bæði ferskleika og hollustu sem mér tókst að gera þessa skotheldu uppskrift sem fellur alltaf vel í kramið. Hún er bæði fljótgerð og einföld en bragðið er alveg dásamleg blanda af sætu bragði kókosmjólkurinnar og krydduðu mótvægi sveppanna og kryddsins.

Súpan er seðjandi og nærandi sem máltíð ein og sér, borin fram með grófu brauði.

Ég nota þessa sömu uppskrift í sveppasósu og pastasósu en þá sleppi ég bara vatninu og hef hana aðeins þykkari. Sérrýið er svona spari-leynihráefni sem ég nota við hátíðleg tilefni og setur punktinn yfir i-ið.

Með því að nota kókosmjólk og kínóamjöl er þessi uppskrift alveg glúten- og mjólkurlaus og hentar því fyrir stóran hóp fólks. Ef þú átt ekki kínóamjöl má líka nota maísmjöl en ef glúten er ekki áhyggjuefni má líka þykkja hana með speltmjöli eða því sem þú hefur vanist að nota í sama tilgangi.

Hráefni

 • 1 stk laukur
 • 2-3 hvítlauksrif
 • 1 box sveppir
 • 2 Rapunzel grænmetisteningar
 • 1 dós kókosmjólk
 • 2 dl vatn
 • 2-3 msk kínóamjöl
 • 1-2 cl Bristol Cream sérrý (má sleppa)

Leiðbeiningar

 1. Saxaðu lauk og hvítlauk og settu í þykkbotna pott ásamt smá skvettu af vatni. Stilltu á ríflegan meðalhita og láttu mýkjast í nokkrar mínútur eða þar til laukurinn er orðinn nokkuð glær.
 2. Grófsaxaðu sveppina og bættu út í pottinn, hitaðu í botn og láttu sveppina dökkna vel.
 3. Bættu vatni, kókosmjólk og grænmetisteningum út í og láttu suðuna koma upp.
 4. Hristu kínóamjöl saman við ca 1/2 dl af vatni og helltu í mjórri bunu út í sjóðandi súpuna, hrærðu vel á meðan.
 5. Smakkaðu til með svörtum, nýmöluðum pipar og smá skvettu af sérrý.

Gott er að bera þessa fram með saxaðri steinselju og e.t.v. smá slettu af þykkri kókosmjólk út á hvern disk.