Aduki hakk með kasjúostasósu

Aduki hakk með kasjúostasósu

Þessi uppskrift varð óvart til eitt kvöldið þegar langt var orðið frá síðustu matarinnkaupum en ég átti afganga af valhnetuhakki og kasjúostasósu eftir að hafa prófað mig áfram með fylltu kúrbítsuppskriftina. Ég hugsaði með mér að það væri upplagt að búa til úr þessu pönnurétt sem minnti að einhverju leyti á hakk, nema bara svo miklu næringarríkari og betri.

Útkoman sló umsvifalaust í gegn á heimilinu og hefur þessi réttur oft verið eldaður síðan. Einn stærsti kosturinn við hann er hversu fljótleg matseldin er, en ég mæli með því að eiga alltaf úrval af niðursoðnum baunum í eldhúsinu svo fljótlegt sé að töfra fram góðgæti sem þetta.

Hráefni

Hakkið:

 • 1 vorlaukur
 • 2 hvítlauksrif
 • handfylli af niðurskornu bok choy eða kínakáli
 • 1 dós af aduki baunum
 • 1 dl valhnetur
 • 1 msk tamarisósa
 • ¼ tsk laukduft
 • Smá cayenne pipar

Kasjúostasósa:

 • 1 dl kasjúhnetur
 • ½ dl vatn
 • 2 msk næringarger
 • 1 tsk laukduft
 • 1 tsk hvítlauksduft
 • 1-2 msk limesafi
 • Salt

Leiðbeiningar

Hakkið:

 1. Settu valhnetur, tamarisósu, laukduft og cayenne pipar í blandara eða matvinnsluvél og kveiktu nokkrum sinnum og slökktu til skiptis svo það blandist vel saman og verði að „hakki“. Passaðu að blanda ekki of mikið svo þetta verði ekki að mauki. Geymdu svo til hliðar.
 2. Saxaðu lauk og hvítlauk og mýktu í dálitlu vatni á pönnu. Bættu svo við káli og aduki baunum og hitaðu í 2-3 mínútur.
 3. Blandaðu þessu svo saman við valhnetuhakkið og berðu fram með kasjúostasósu og e.t.v spagettí eða salati.

 

Sósan:

 1. Láttu kasjúhneturnar liggja í bleyti í 2-3 tíma ef þú hefur tök á.
 2. Helltu svo vatninu af og maukaðu allt saman í blandara eða matvinnsluvél.
 3. Bættu við vatni ef þörf er á, þetta á að vera mjög þykk sósa.

Berðu hakkið fram með ríflegum skammti af sósunni. Hakkið er ljúffengt en sósan þar til viðbótar gerir þennan rétt ómótstæðilegan.