Allt um kínóa

Allt um kínóa

Þetta undrakorn er bráðhollt, ljúffengt, glútenlaust, próteinríkt og auðvelt að nota á fjölbreyttan hátt. Það er upplagt að eiga alltaf kínóa við hendina til að henda saman við kvöldmatinn, nota sem grunn í salat, setja í nestisboxið, vefjuna eða bara út í morgunþeytinginn!

Kínóa er strangt til tekið frætegund en er notað á sama hátt og hrísgrjón eða hvers kyns matarkorn. Oftast er það selt þurrkað í pokum og þá þarf að skola og sjóða fyrir neyslu, en það er einnig hægt að fá það forsoðið og tilbúið til neyslu. Það er samt sem áður mjög einfalt að elda þessar dúllur frá grunni og mér finnst gott að eiga soðiðkínóa tilbúið í ísskápnum. Sumar tegundir þarf að skola mjög vel fyrir suðu en aðrar hafa verið forskolaðar og mega fara beint í pottinn. Á kínóafræjunum er beisk himna frá náttúrunnar hendi sem þarf að fjarlægja með skolun svo bragðið verði eins og við viljum hafa það.

Ástæðan fyrir því að kínóa er orðin svona vinsæll matur er ekki bara ljúffengt bragðið sem er létt með mildum hnetukeimi. Það er einstaklega prótein-, steinefna- og næringarríkt, er ríkt af andoxunarefnum, fer vel í maga og passar með nánast hverju sem er, bæði sætu og krydduðu. Próteinið inniheldur allar lífsnauðsynlegu amínósýrurnar og er því flokkað sem „fullkomið prótein“

Matargerðin

Það er einfalt að sjóða kínóa en þú gætir þurft að prófa þig áfram með þína eldavél og potta til að finna út hvernig þú nærð bestu mögulegu útkomu í þínu eldhúsi. Til að byrja með þarftu að leggja fræin í bleyti ef þau hafa ekki verið forskoluð fyrir pökkun. Ef ég er ekki viss finnst mér gott að setja þau í hristibrúsa með áföstu sigti eins og eru t.d. oft notaðir fyrir próteindrykki. Ég bæti svo við tvöföldu magni af vatni og hristi rækilega. Ef vatnið verður mjög gruggugt og freyðandi þarf að láta fræin liggja í bleyti í nokkra klukkutíma. Ef vatnið er hinsvegar nokkuð tært er búið að skola þau og má setja þau beint í pottinn. Það má líka alveg smakka eitt fræ og athuga hvort það sé beiskt á bragðið til að gá hvort það sé tilbúið í suðu. Eftir baðið skaltu skola vel í mjög fíngerðu sigti áður en þú setur nýtt vatn með fræjunum í pott.

Í pottinn fer þá kínóa og vatn sem er tvöfalt meira að umfangi en þurr fræin. Þannig að ef þú byrjaðir með 1 dl af þurrum fræjum (hvort sem þau fóru í bleyti eða ekki) þá seturðu þau í pottinn með 2 dl af köldu vatni. Þau geta dregið í sig smá vökva þegar þau eru í bleyti svo mundu að mæla þau strax í byrjun. Lykilatriði er að vatnið sé kalt og potturinn þykkbotna. Ég nota meira að segja þykkbotna stálpönnu fyrir alla svona suðu þar sem mér finnst ég ná betri útkomu þegar yfirborðið er stærra. Næst seturðu lokið á og stillir á u.þ.b. miðlungshita, lætur þetta svo alveg vera í 15-20 mínútur. Þegar vatnið er gufað upp og þú sérð að fræin eru orðin glær með hvítum „hala“ sem er hálf-laus frá þeim, þá er kínóað tilbúið! Það þarf smá innsæi eða reynslu til að hitta akkúrat á mínútuna þegar vatnið er horfið og ekkert er byrjað að brenna við. Ekki láta það stressa þig, kíktu bara oftar í fyrstu skiptin og fylgstu vel með.

Eftir suðu finnst mér gott að hella kínóanu í fat og hræra svolítið í því á meðan gufar upp úr því. Þannig næ ég þessu öllu saman léttu og „flöffí“. Svo má nota þetta í alls konar mat eða setja í loftþétt box inn í ísskáp í allavega 3-5 daga.

Hvað er svo hægt að gera við þetta undrafæði?

  1. Skelltu nokkrum skeiðum af soðnu, ókrydduðu kínóa út í þeytinga til að fá meira prótein og næringu úr drykknum.
  2. Prófaðu að setja grænmetiskraft eða uppáhalds kryddið út í suðuvatnið til að fá öðruvísi bragð og berðu kínóað svo fram sem meðlæti með hverju sem er.
  3. Það má líka sjóða kínóa upp úr kókosmjólk og smá vanillu til að gera það sætara og þá verður það dásamlegt með niðurskornum ávöxtum sem snarl eða eftirréttur.
  4. Notaðu kínóa í stað kúskús, hrísgrjóna eða bulgur í næstum því hvaða uppskrift sem er. Athugaðu bara að það gæti verið mismunandi suðutími.
  5. Blandaðu saman soðnu kínóa, kryddi og alls konar grænmeti, fylltu paprikur með þessu og bakaðu í smástund í ofni.
  6. Bættu kínóa út í súpur til að gera þær matarmeiri og næringarríkari.
  7. Blandaðu kínóa saman við salatið eða búðu til matarmikið salat úr kínóaréttar afgöngum. Þú verður saddari lengur!
  8. Prófaðu að blanda soðnu kínóa út í þínar eigin uppskriftir, t.d. lasagna eða aðra ofnrétti, grænmetisbollur, grauta eða hvað sem þér dettur í hug.
  9. Settu smávegis kínóa út í baksturinn. Það hentar vel í flestar þéttar kökur og brauð, ýmist soðin heil fræ eða soðin og maukuð fyrir notkun.
  10. Bættu matskeið af kínóa á vefjuna þína ásamt baunum, grænmeti og góðri sósu eða hummus.