Dr. Bronners sápa fyrir húð og hár

Dr. Bronners sápa fyrir húð og hár

Margir sem hafa kynnst mér aðeins líta á mig sem hálgerðan hippa og náttúrubarn. Þeir sem hafa kynnst mér betur vita að það er fullkominn misskilningur því þær hugmyndir eiga ekkert sérstaklega vel við. Ég kann vel að meta vörur sem eru eins nálægt náttúrulegum uppruna sínum og mögulegt er og ég hef óvenjulega mikið þol fyrir neyslu ógeðsdrykkja (engar áhyggjur, uppskriftirnar mínar hér eru langt frá þeirri skilgreiningu). Á hinn bóginn er ég pjattrófa, snerti ekki mold með berum fingrum og vil gjarnan njóta nútíma lúxuss svona þar sem því verður við komið.

Dr. Bronners sápuna heyrði ég fyrst um í Youtube spjalli hráfæðisgúrúsins Megan Elizabeth. Og sjáðu til…HÚN er miklu meiri hippi en ég get látið mig dreyma um að verða nokkurn tímann. Hún lýsti því þar hvernig hún notaði þessa sáputegund í allt frá skúringum upp í hárþvott og ég hugsaði með mér að þetta væri nú of langt gengið fyrir minn smekk. Bæði benti nafnið til þess að varan væri eins langt frá nútímalegum viðmiðum um virkni sápu og mögulegt væri og svo renndu umbúðirnar stoðum undir sömu fordóma. Markaðsfræðinördinn innra með mér grét.

Svo var það nokkru seinna að gott fólk ákvað að flytja Dr Bronners vörurnar inn til Íslands. Málið atvikaðist þannig að ég fékk afhent sýnishorn til prufu þar sem ég var á þeim tíma innkaupastjóri heilsudeilda Nettó og viðkomandi batt vonir við að varan færi í sölu þar. Úr því varð ekki en ég hins vegar tók þessar undarlegu flöskur með mér heim og horfði á þær í nokkrar vikur áður en ég afréð að fórna mér í tilraunastarfsemi. Sá fyrir mér að þá fyrst yrði ég loks steríótýpan fullkomnuð, illa lyktandi og með hárið í gaddavírskenndri sátu aftan á hnakkanum.

Ég hafði fengið tvær tegundir af sápu, með piparmyntu og lavender, en einnig hárnæringu, hárkrem og sótthreinsisprey fyrir hendur. Í fyrstu atrennu prófaði ég sápuna bæði á húð og hár, endaði á hárnæringunni og setti svo hárkremið í hárið hálfblautt. Ég féll umsvifalaust fyrir sápunni. Hún er mjög þunnfljótandi og ég áttaði mig fljótt á því að ég þurfti aðeins nokkra dropa á allan líkamann. Hún freyðir vel og lyktar dásamlega. Piparmyntusápan var einstaklega hressandi og ég kom endurnærð úr sturtu, enda eru hreinar ilmkjarnaolíur í sápunni sem hafa sannarlega áhrif á líðan og heilsu.

Það var hins vegar mjög skrítið að setja þetta í hárið. Það varð allt stamt og skrítið en ég er með mjög sítt, þykkt og gróft hár svo þetta endaði hálfpartinn á því að spáin um gaddavírssátuna rættist þarna strax í sturtunni. Næst setti ég í mig hárnæringu og beið í nokkrar mínútur en mér til mikillar gleði bætti það töluvert úr ástandinu og hárið varð nokkuð eðlilegt á ný. Eftir að hafa sett kremið í og beðið eftir að hárið þornaði greiddi ég það og varð heldur betur upprifin af útkomunni. Það hafði fengið á sig einstaklega fallegan gljáa og var óvenju viðráðanlegt, engir „lausir endar“ ef svo má segja heldur afskaplega slétt og fellt. Ég át því hattinn minn og fagnaði því mjög að geta virkilega notað svona náttúrulega og eiturefnalausa vöru.

Sæunn var ekki lengi í paradís. Með hverjum þvotti varð þykka, grófa og síða hárið feitara og á endanum leitaði ég ráða á veraldarvefnum og komst að því að helsti gallinn við að nota þessa vöru sem sjampó var sá að margir (ekki allir) lentu í uppsöfnun olíu í hársverðinum. Þ.e. hátt hlutfall kókosolíu varð til þess að fallegi gljáinn sem ég sá fyrst hélt bara áfram að safnast upp þar til þetta var orðið heldur ófrýnilegt. Ég sá ekkert annað í stöðunni en að hætta Dr Bronners hárþvotti en hins vegar hef ég aldrei notað aðra sturtusápu eftir þetta. Piparmyntusápan á sinn fasta sess í baðskápnum og ég hef uppgötvað að lavender sápan er alveg frábær raksápa! Lavender er róandi og sefandi jurt sem er auðvitað upplagt að nýta í fótleggjarakstur en ég get á sama tíma upplýst að piparmynta er ekki góð hugmynd fyrir slíkar athafnir.

Ég er viss um að Dr Bronners hentar vel til hárþvotta fyrir einhverja, enda er misjafnt hvað hentar fyrir mismunandi húð- og hárgerðir. Mér finnst hins vegar ólíklegt að aðrir síð- og þykkhærðir verði mjög ánægðir. Hins vegar mæli ég með þessu sem húðsápu fyrir alla, óháð aldri. Það er alveg grátlegt hversu miklu magni af eiturefnum við smyrjum á húð okkar á einni ævi, bæði heilsunnar vegna og umhverfisins. Mér líður því alltaf vel að nota Dr Bronners sturtusápuna mína því ég veit að ekkert í henni skaðar mig eða náttúruna. Áhrifin af piparmyntusápunni eru svo hressandi að ég tek með mér lítinn brúsa af þessu undri í öll ferðalög, jafnvel á fínustu hótel.

Hárkremið nota ég enn. Það lyktar mjög vel og ég nudda því oft í þurrt hárið til að beisla frjálsa enda og auðvelda mér að leggja það í lokka. Þetta er ekki mótunarefni en gerir áferðina aðeins fallegri í hvert sinn. Sótthreinsispreyið hefur líka komið að góðu gagni og mér finnst það bæði þægilegt í notkun og óvenju vel lyktandi. Flest handspritt sem ég hef notað hefur lyktað þannig að ég hef nánast þurft að stinga höndunum út um glugga á meðan það versta gengur yfir en þetta ilmar af lavender og þurrkar húðina ekki eins og sprittið hefur gert.

Í stuttu máli sagt: Dr Bronners vöru eru frá umhverfis- og hollustusjónarmiði eitthvað það bersta sem þú getur sett á húðina (og í hárið). Ég mæli með að sem flestir prófi a.m.k., það er tilraunarinnar virði.