SMÁskorun til betra lífs

SMÁskorun til betra lífs

Ég er SVO oft búin að skora á sjálfa mig að gera eitthvað stórkostlegt varðandi eigin heilsu eða form og ég hef brotlent í hvert einasta skipti. Það er því kominn tími á að horfast í augu við að ég mun ekki komast í fitness form fyrir jólin, ég verð ekki búin að læra nýtt tungumál að fullu eftir sex vikur og líklega verður þvottakarfan ekki tóm alla daga næsta árið eða nýbakað brauð á borðum alla laugardagsmorgna í vetur. Eins mikið og mig LAAANGAR að bylta lífi mínu á marga vegu þá ætla ég núna að horfast í augu við að allar stórar breytingar síðustu ára hafa gerst í svo smáum skrefum að ég tók varla eftir þeim. Í sannleika sagt hefði mig ekki dreymt um það fyrir fimm árum að vera komin jafn langt með sjálfa mig og raunin er og það er fullyrðing sem á vel við á hvaða tímapunkti sem er þegar ég hugsa til baka.

Núna hef ég loksins sætt mig við það að frasinn sem ég hef alltaf ranghvolft augunum yfir er líklega sannur: „Flestir ofmeta hvað þeir geta gert á einum mánuði en vanmeta hvað þeir geta gert á heilu ári.“ Gott og vel – ég beygi mig auðmjúklega undir þessa staðreynd, annað er fullreynt. Þar sem ég get á flestum öðrum sviðum lífs míns afkastað miklu og náð hröðum árangri með ástríðuna eina að vopni jaðrar við að ég finni fyrir hálfgerðri uppgjöf þegar ég viðurkenni fyrir sjálfri mér að öðrum aðferðum þurfi að beita þegar kemur að heilsu minni og nánasta umhverfi. Hins vegar væri ég ekki að skrifa þessi orð nema ég teldi mig hafa dottið niður á lausnina og ég er svo spennt fyrir henni að mig langar að skora á þig að taka þátt í þessu með mér.

Það er eitt að vera vel að sér í hollustu og næringu en alveg allt annar handleggur að halda sér við efnið, tileinka sér batnandi neyslusiði og bæta líf sitt með þeirri þekkingu sem man aflar sér. Heilsuhegðun er auðvitað heil fræðigrein út af fyrir sig sem gaman er að stúdera og það hvernig við breytum venjum okkar er efni í heila ritröð. Ég hef lengi fylgst með skrifum Leo Babauta á zenhabits.net en hann er afar minimalískur maður sem hefur umbylt lífi sínu í skrefum og hefur skrifað mikið um áhrifaríka hegðunarbreytingu. Einn pistill hefur verið sérstaklega minnisstæður en þar hvetur hann lesendur til að gera svo litlar og ómerkilegar breytingar á hegðun sinni að það yrði hreinlega asnalegt að fylgja því ekki eftir. Til dæmis má nefna að ef þú vilt byrja að hreyfa þig þá geturðu byrjað á að gera eina armbeygju á dag. Bara eina, staka armbeygju. Hversu fáránlegt væri það að standa ekki við einu armbeygju dagsins? Ef þú vilt venja þig á að nota tannþráð þá geturðu byrjað á að bara hreinsa eitt tannbil og svo ekkert meira. Þetta var langur pistill en þú skilur hvert ég er að fara.

Ég datt svo inn á daglegt videoblogg hjá vinkonu minni, Honey LaBronx í morgun – eða öllu heldur manninum á bak við hana. Hann hefur skorað á sjálfan sig að bæta atriðum í daglega rútínu í þrjátíu daga og margir fylgjendur hans eru að taka þátt með honum. Á meðan ég hlustaði á hann spjalla um þetta átak sitt fékk ég þá hugdettu að sameina þessar tvær hugmyndir í mína eigin SMÁSKORUN. Ég ætla að bæta við nýrri en mjög smávægilegri venju í daglegt líf mitt í þrjátíu daga og ég er viss um að þú hefur gagn af því að gera slíkt hið sama!

Reglurnar eru eftirfarandi:

  1. Þú ætlar að BÆTA VIÐ nýrri venju í daglegt líf þitt.
  2. Þú velur venju sem mundi bæta líðan þína eða heilsu á einhvern hátt, líkamlega eða andlega.
  3. Þú ætlar að hafa nýju hegðunina það litla að það væri kjánalegt að fylgja henni ekki eftir alla dagana.
  4. Þú ætlar ekki að fara fram úr þér með því að auka, lengja eða bæta við það sem þú hefur valið þér.
  5. Að öðru leyti ætlarðu ekki að breyta neinu og þú setur þér ekki markmið um að hætta neinu.

Að 30 dögum liðnum eru líkur á að nýja venjan verði orðin að mjög fyrirhafnalítilli athöfn sem er sjálfsagður hluti af deginum og það er hugsanlegt að ósjálfrátt hafi dregið úr annarri og óæskilegri hegðun. Gott dæmi sem Honey tók var það að ef þú borðar ruslfæði dags daglega en ákveður að bæta við bara einu daglegu salati, þá hefur þú sjálfkrafa örlítið minna magapláss fyrir óhollustuna og þannig kemur nýja hegðunin fyrirhafnarlaust í staðinn fyrir þá gömlu í mjög litlum skrefum.

Ég ætla að passa mig vel á því að hemja minn innri brjálæðing og fyrirbyggja þráhyggju með því að halda mig innan vel afmarkaðs ramma í minni smáskorun sem snýst um að koma hóflegri og réttri hreyfingu inn í mína daglegu rútínu. Áður fyrr stundaði ég mikla og ákafa hreyfingu í skorpum en ofgerði mér í hvert sinn með misalvarlegum afleiðingum. Ég stundaði líkamsrækt af kappi en uppskar mikla vanlíðan, verki og í sumum tilfellum ofþjálfunareinkenni. Nýlega kom í ljós að ég væri bæði með brjóskeyðingu í hnjám vegna lausra liðbanda sem hafa valdið einhverri vöðvarýrnun og ósamræmi í vöðvastyrk auk þess sem upp komst um hryggskekkju sem skýrði alvarleika einkennanna en við öllu þessu eru til lausnir sem ég hlakka til að nýta mér. Það sem ég þarf að gera fyrst er að byrja að styrkja ákveðna vöðva og byggja mig upp áður en ég get aftur farið í líkamsrækt af kappi en þá með þann stuðning og þekkingu sem mun hjálpa mér að viðhalda góðri rútínu og uppskera raunverulegan árangur. Ég ætla því, í 30 daga, að stunda líkamsrækt í 15 mínútur og fara það rólega af stað að ég svitni ekki einu sinni. Það mun hjálpa mér að koma heimsókn á líkamsræktarstöð inn í sjálfsagða hegðun, fyrirbyggja frekari skaða á liðum og byggja mig undir stigvaxandi líkamsrækt og álag. Það er mikill léttir fyrir mig að hafa tekið þessa ákvörðun þar sem ég hef aldrei byrjað neina hreyfingu á öðru en fullri keyrslu og miklu keppnisskapi svo ég hef verið að fresta því og kvíða fyrir hinni óhjákvæmilegu innleiðingu reglubundinnar hreyfingar í líf mitt.

Hver verður þín smáskorun? Deildu henni með vinum þínum eða sendu mér skilaboð eða jafnvel skemmtilegt snapp um hana! Mín smáskorun verður samviskusamlega skrásett á mínu snappi sem þú finnur á notandanafninu HOLLUSTA.