Um vefinn

Ég heiti Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir og mitt aðaláhugamál er að nördast í næringar- og hollustupælingum, gera tilraunir og sanka að mér sniðugum hugmyndum til að bæta hollustu án þess að það kosti of mikla fyrirhöfn. Ég er ekki sérfræðingur um næringu eða heilsu en deili af reynslu minni og reyni eftir fremsta megni að nýta þann hafsjó af fróðleik sem ég hef lesið og sannprófað á sjálfri mér í gegnum árin.

Undanfarin ár hef ég notið þeirra forréttinda að starfa við áhugasvið mitt með fjölbreyttum hætti. Ég var innkaupastjóri lífrænna- og heilsuvara í Samkaup og Nettó, gerðist svo markaðsstjóri og síðar rekstrarstjóri Gló en er nú að byggja upp eigin rekstur ásamt eiginmanni mínum í heilsölunni okkar, Veganmat ehf. Við flytjum m.a. inn og dreifum Oumph! og Adonis vörunum ásamt því sem fleiri vörumerki eru væntanleg.

Hugmyndin um næringarhyggju (e. nutritarianism) samkvæmt kenningum Dr. Joel Fuhrman er mitt stærsta leiðarljós í mataræðinu. Næringarhyggjan snýst um að hámarka næringargildi á hverja hitaeiningu og útilokar því sjálfkrafa mikið unnin og næringarsnauð matvæli. Mín áskorun er því að búa til hollan og næringarríkan mat þar sem hvert einasta hráefni hefur heilsusamlegan og uppbyggjandi tilgang og lágmarka í leiðinni öll skaðleg, vafasöm eða næringarsnauð hráefni.

Í nóvember 2014 birtist viðtal við mig á Heilsuvísi og í Fréttablaðinu sem skýrir þá hugmyndafræði sem ég hef mótað með mér í gegnum árin og þar segi ég örlítið frá því hvað varð til þess að ég byrjaði á þessu öllu saman. Smelltu hér til að lesa.