Heilnæmar og hátíðlegar sörur

Heilnæmar og hátíðlegar sörur

Ég hef ekki smakkað hefðbundnar sörur í hátt í áratug og hef lítið saknað þeirra. Undanfarið hef ég hins vegar séð mikla sörustemmingu í kringum mig og ákvað að láta reyna á það hvort mér tækist að gera ljúffengar sörur úr heilnæmum hráefnum sem væru jafnframt án eggja, mjólkur og glútens. Útkoman er dásamleg og ég mun svo sannarlega gæta þess að eiga nokkrar svona við höndina yfir hátíðarnar!

Almennt er ég ekki vön að eyða miklum tíma í eldhúsinu og flestar mínar uppskriftir krefjast lítils nosturs. Þetta var því alveg ný upplifun fyrir mig og ég er ekki frá því að næst muni ég bara skella þessu öllu saman í eina sörutertu frekar en að búa til margar svona litlar dúllur. Satt að segja hef ég aldrei nokkurn tímann bakað sörur áður sökum eldhússóþolinmæði minnar en þessar eru algjörlega fyrirhafnarinnar virði.

Ég kann vel að meta einfaldleika og stutta hráefnalista en ég efast ekki um að hægt sé að gera alls konar útfærslur af þessari einföldu uppskrift. Grunnurinn er í botninum þar sem skipta má út kókossykrinum fyrir aðra sætu og í kremið má setja hvað sem hugurinn girnist þar sem kókosrjóminn er grunnurinn og önnur hráefni gefa bragðið.

Ég nota fljótandi kókossykur frá Cocofina, sem er ótrúlega bragðgóður og hefur örlítið djúpan, maltkenndan keim. Kókossykur hefur hærra næringargildi en flestur annar náttúrulegur sykur og hefur minni áhrif á blóðsykur en margir aðrir valkostir, en sykurstuðull kókossykursins er 35, á meðan strásykur er í kringum 60 og maíssýróp (High Fructose Corn Syrup) er í 87.  Þessi fljótandi sykur er lítið unninn safi sem sóttur er úr blómi kókospálmans án þess að fella tréð, hann er lítið hitaður og flokkast sem hráfæði. Það þýðir að hann heldur náttúrulegu eiginleikum sínum eins vel og unnt er þegar um pakkaða vöru er að ræða. Þannig er fljótandi kókossykur góður kostur í stað annarrar sætu við hátíðleg tilefni.

Ef þú vilt nota eitthvað annað en fljótandi kókossykur er hreint hlynsýróp líka góður valkostur eða önnur fljótandi eða fínmulin sæta eftir því hvað þér finnst henta best.

Hráefni

Botnar:

 • 1/2 dl möndlumjólk
 • 1 msk hörfræjamjöl
 • 1/2 dl fljótandi kókossykur
 • 120 gr möndlumjöl
 • 100 gr hýðislausar möndlur

Krem:

 • 1-2 dósir kókosmjólk
 • 1-2 msk fljótandi kókossykur
 • 1 msk hrákakó
 • 50 gr heslihnetur
 • 1-3 msk rótsterkt kaffi, kælt

Súkkulaðihjúpur:

 • 100 gr gott, dökkt súkkulaði

Leiðbeiningar

Botnar:

 1. Hrærðu saman möndlumjólk og hörfræjamjöli og láttu standa í 5-10 mínútur þar til það þykknar dálítið.
 2. Notaðu tímann á meðan til að grófhakka möndlurnar, t.d. í blandara eða matvinnsluvél.
 3. Blandaðu kókossykrinum saman við hörfræjamjölið og möndlumjólkina.
 4. Hrærðu möndlumjöli og hökkuðum möndlum vel saman við.
 5. Hnoðaðu litlar kúlur og þrýstu þeim á bökunarpappír þannig að þær verði hringlaga og um 3-4 mm á þykkt.
 6. Bakaðu við ca 140 gráður í 7-15 mínútur og fylgstu mjög vel með. Kökurnar verða mjúkar og lyfta sér örlítið, þær ættu að taka örlítinn lit og eru tilbúnar þegar jaðrarnir byrja örlítið að dökkna. Ef þær bakast of lengi missa þær mjúka, sæta möndlubragðið að hluta til.

 

Krem:

Byrjaðu á að gera þeyttan kókosrjóma:

Þetta finnst mér alveg dásamlegur staðgengill hins hefðbundna rjóma og ég á alltaf eina dós af kókosmjólk inni í ísskáp svo ég geti þeytt rjóma við hvaða tilefni sem er. Ég hef prófað nokkrar tegundir af kókosmjólk í rjómagerðina og það er misjafnt hversu vel þær þeytast. Undanfarið hef ég eingöngu notað änglamark lífræna kókosmjólk í þessum tilgangi þar sem ég lendi aldrei í vandræðum með þeytinguna og fæ óvenju mikið magn rjóma úr hverri dós. Afganginn geymi ég og nota í súpur, drykki eða sósur.

 1. Geymdu dós af kókosmjólk í ísskáp í minnst einn sólarhring.
 2. Opnaðu dósina án þess að hrista hana eða hvolfa.
 3. Skafðu þykka hlutann ofan af með matskeið og færðu yfir í skál.
 4. Þeyttu eins og hefðbundinn rjóma í 1-2 mínútur.

Þegar kókosrjóminn er tilbúinn gerir þú kremið, en þar sem kókosmjólkin getur verið mismunandi eftir uppskeru, árstíma og á milli vörumerkja eru hlutföllin ekki nákvæm. Smakkaðu kremið og bættu í það hráefnum eftir smekk:

 1. Malaðu heslihneturnar í fínt eða gróft mjöl, eftir því hvernig þú vilt hafa áferð kremsins.
 2. Blandaðu öllum hráefnunum saman við rjómann og gerðu kremið að þínu með því að breyta hlutföllum á milli sætu, kaffis og kakós. Mér finnst gott að hafa litla sætu en ríkt heslihnetu- og kaffibragð en kannski vilt þú frekar sætara kakóbragð.

 

Samsetning:

 1. Passaðu að bæði botnarnir séu alveg kaldir þegar kemur að því að setja kremið á. Mér finnst gott að gera bæði botnana og kremið daginn fyrir samsetningu og geyma hvort um sig í lokuðu íláti í ísskáp.
 2. Sprautaðu eða smyrðu kreminu á kökurnar í þeirri þykkt sem þér líkar best.
 3. Gott er að geyma smurða botnana aftur í ísskáp á meðan súkkulaðið er brætt og kælt svo kakan sé örugglega köld og kremið leki ekki við hjúpun.
 4. Bræddu súkkulaðið yfir vatnsbaði, láttu það kólna og hjúpaðu svo kökurnar hverja fyrir sig áður en þú kælir aftur. Kökurnar geymast svo í kæli eða frysti fram að neyslu.

 

Súkkulaðihjúpurinn minn var samansettur úr 70% Rapunzel súkkulaði og Dark nougat Vivani súkkulaði sem ég þynnti örlítið með 3 matskeiðum af kókosmjólk. Dásamleg blanda en það er um að gera að prófa ólíkar súkkulaðitegundir eða blanda saman tveimur ólíkum.