Í fermingarvertíðinni fékk ég fyrirspurn frá Fréttablaðinu um það hvort ég gæti útvegað einfalda uppskrift að vegan rétti á fermingarhlaðborðið. Ég átti ekkert nýlegt í handraðanum svo ég fór út í tilraunir og út úr þeim kom þessi einfalda og ljúffenga uppskrift sem gaman er að bjóða upp á. Bitarnir eru svo krúttlegir og Oumph! bitarnir koma öllum skemmtilega á óvart!
Hráefni
- 1 kg litlar, hvítar kartöflur
- 1 poki Oumph! kebab bitar
- Sneið af cantaloupe melónu
- 2 lítil avokadó (ca 200 gr afhýdd og steinhreinsuð)
- 2 hvítlauksrif
- 1-2 msk ferskur sítrónusafi
- ½ – 1 tsk eplaedik (má sleppa)
- ½ – 1 dl kjúklingabaunasoð t.d. af niðursoðnum baunum (má nota góða olíu í staðinn en þá minna magn)
- Nýmalaður svartur pipar
- Flögusalt
- Þurrkaðar chiliflögur (má sleppa)
Leiðbeiningar
- Sjóddu kartöflurnar og taktu Oumph! úr frysti. Hitaðu bakarofn í 180 gráður.
- Leggðu bökunarpappír á ofnplötu og raðaðu soðnum kartöflum á hann. Notaðu flatt áhald til að kremja þær niður í ca ½ cm þykkt. Penslaðu ríflegu magni af kjúklingabaunasoði eða olíu á hverja kartöflu og stráðu vel af salti og pipar yfir allt. Settu svo í ofninn og láttu bakast þar til kartöflurnar eru fallega brúnar að ofan.
- Nýttu tímann til að steikja Oumph! í 4-5 mínútur eða þar til það er heitt í gegn og komið með fallega steikingaráferð. Taktu til hliðar og geymdu.
- Taktu kartöflurnar út, snúðu þeim öllum við og endurtaktu ferlið með soð/olíu og krydd. Stingdu aftur í ofninn og bíddu þar til kartöflurnar verða vel bakaðar.
- Maukaðu saman avokadó og hvítlauk, smakkaðu til með sítrónusafa og örlitlu eplaediki ásamt salti og pipar. Bættu chili út í ef þú vilt sterkari sósu.
- Þegar kartöflurnar eru tilbúnar, stráðu þá þurrkaðri steinselju yfir þær og láttu kólna.
- Skerðu loks melónuna í litla bita og settu bitana saman: Kartafla neðst, svo avókadómauk, loks Oumph! biti og stráðu í lokin góðum skammti af þurrkaðri steinselju yfir allt. Það gæti þurft að setja tvo Oumph! bita á sumar kartöflur eða skera þá í tvennt, allt eftir stærð kartaflnanna.
- Kartöflurnar má baka og krydda daginn áður til að flýta fyrir en gott er að bíða með samsetningu bitanna þar til daginn sem á að njóta þeirra. Borið fram kalt sem fingramatur.