Bók: Positive Intelligence

Bók: Positive Intelligence

Ég er mikil áhugamanneskja um persónulegan þroska og andlega framþróun. Umbótasinnað eðli mitt er svo sterkt að það nær bæði yfir þau verkefni sem ég tek mér fyrir hendur jafnt sem mína eigin eiginleika. Með því er ég ekki að fullyrða nokkuð um eigið ágæti enda á ég langa göngu fyrir höndum á eigin þróunarbraut 🙂

Eftir óhóflega neyslu á hvers konar niðursoðningi í sjálfshjálpardeildinni á yngri árum er ég þó komin með hálfgert óþol fyrir slíkum bókmenntum. En undanfarin tvö ár eða svo hef ég örlítið opnað annað augað fyrir því sem ég mundi kalla úrvalsdeildina í þeim flokki. Þá er ég að tala um höfunda sem eru ekki að selja skyndilausnir og klisjur eða útrunnar æfingar sem fá rófubeinið til að skjálfa úr kjánahryllingi. Nei, ég er að meina fólk sem virkilega hefur eitthvað nýtt til málanna að leggja eða nálgast umræðuefni sitt út frá því staðfasta sjónarmiði að skyndilausnir og töfrandi umbreytingar séu ekki leiðin. Vísindi hvers konar skemma ekki fyrir en ég gef sérlegum fígúrum á borð við Eckhart Tolle alveg tækifæri líka.

Í þessari bók, Positive Intelligence, felst snilldin einna helst í því hvernig höfundurinn hefur sankað að sér upplýsingum og búið til greiningartól sem mætti á íslensku kalla Skemmdarvargana. Hann hefur skilgreint helstu flokka innra niðurrifs sem við notum okkur til eigin hindrana og gerir einhverja tilraun til að útskýra tilurð hvers og eins. Jafnvel þó hann dansi á köflum klisjukenndrar poppsálfræði hér og þar þá fyrirgef ég honum það af þeirri ástæðu að afurðin er einstaklega gagnleg, þ.e. skemmdarvargagreiningin.

Hann stillir því upp þannig að við höfum öll 10 mismunandi skemmdarvarga að geyma innra með okkur sem eiga sér þann draum heitastan að sjá okkur mistakast og þjást. (afsakið dramatískar lýsingar, þetta er jú hitamál). Þetta eru hinir litríkustu karakterar sem lesa má um í meiri smáatriðum á vef bókarinnar.

Lækninginn á þessari óværu felst fyrst og fremst í að þekkja raddir varganna, taka eftir því þegar þeir skjóta upp kollinum og gera sér grein fyrir því að þeir hafi ekki framtíðarhagsmuni manns í huga. Jafnframt eru kenndar núvitundar æfingar sem eiga að hjálpa við að draga úr áhrifunum og útskýrt með sæmilega vísindalegum hætti hvers vegna það virkar en það má vel vera að vísindafróðum þyki þær skýringar ansi léttvægar. Þær dugðu mér þó ágætlega og trúin flytur fjöll svo ég læt vera að kafa dýpra í vísindalegan grundvöll útskýringa hans.

Með einföldu og ókeypis sjálfsprófi á vef bókarinnar má komast að því hvaða skemmdarvarga þú lætur helst þvælast fyrir þér og ef mér skjátlast ekki fylgir með niðurstöðunum létt greining og útskýring sem kemur eflaust að einhverjum notum.

Eftir lestur bókarinnar fyrir u.þ.b. tveimur árum síðan og iðkun aðferða hennar í kjölfarið fann ég nokkurn mun, aðallega í aukinni yfirvegun og meira þoli fyrir óvæntum uppákomum. Ég væri hins vegar að ljúga ef ég segðist hafa masterað þessa tækni, hún gleymdist fljótlega og iðkunin varð stopulli. Samt sem áður gleymist boðskapurinn ekki og þrátt fyrir að nokkrir skemmdavargar hafi það ennþá notalegt í góðum félagsskap þá man ég stundum eftir að tala þá til þegar þörfin er brýn. Ég vil hins vegar taka það fram að ég þrælaði mér í gegnum þessa bók á Audible og get ekki með nokkru móti mælt með slíkum pyntingum. Höfundurinn sjálfur hefur ákveðið að lesa bókina sína og hann er heppinn að efnið er áhugavert því það krafðist gríðarlegs aga og ásetnings að hlusta í gegnum allt þar sem rödd hans er með eindæmum mónótónísk og svæfandi.