Svartbaunaborgarar

Svartbaunaborgarar

Hvort sem þig langar í eitthvað heilnæmt á grillið, djúsí í kvöldmatinn eða elda stóra skammta í frystinn þá eru góð grænmetisbuff alltaf góður kostur. Svartbaunaborgarar af ýmsu tagi eru núna með því allra heitasta bæði meðal vegana og hollustuþenkjandi fólks almennt. Á netinu finnast eflaust mörg þúsund mismunandi uppskriftir að slíku gúrmeti en ég gæti nú ekki verið bloggari með bloggurum nema koma með mína eigin uppskrift!

Þessi er einföld og fljótleg og afraksturinn ljúffengur. Mér finnst gott að borða borgarann minn með hollu meðlæti knúsað inn í súrdeigsbollu frá hinu dásamlega, lífræna miðborgarbakaríi Brauð&co. Ef þú ert meira í stuði fyrir sveittari útgáfu þá henta þessi buff alveg jafn vel í hvaða hamborgarabrauði sem er, með kokteilsósu úr vegan majó og góðum skammti af fröllum.

Uppskriftin að borgurunum sjálfum er glútenlaus og mætti bera þá fram í góðu glútenlausu brauði eða sem buff fyrir þá sem ekki þola neyslu þess. Þeir sem hins vegar geta neytt glútens áhyggjulausir hafa val um að nota annað mjöl en möndlumjöl ef því er að skipta. Þannig má vel nýta það sem til er í skápunum frekar en að fara í miklar fjárfestingar á framandi hráefnum.

Hráefni

Borgararnir:

 • 6 stk skalottlaukar
 • 4 stk hvítlauksrif
 • 1 dós svartar baunir
 • 130 gr sæt kartafla, bökuð
 • ½ – 1 dl möndlumjöl
 • ½ tsk svartur pipar
 • ¼ tsk salt
 • ¼ tsk cayenne pipar
 • ¼ tsk hvítlauksduft

 

Raspur:

 • 1 tsk möndlumjöl
 • ¼ tsk laukduft

 

Meðlæti á mynd:

 • Súrdeigsbrauðbolla
 • Tahini sósa
 • Avocado
 • Tómatar
 • Sólþurrkaðir tómatar, saxaðir
 • Saxaður rauðlaukur

Leiðbeiningar

 1. Bakaðu sæta kartöflu svo hún verði mjúk í gegn.
 2. Saxaðu lauk og hvítlauk, hitaðu hann svo á pönnu í smá skvettu af vatni.
 3. Skolaðu baunirnar og stappaðu þær mjög gróflega, bættu þeim saman við laukinn þegar hann er orðinn vel heitur.
 4. Kryddaðu blönduna, taktu af hitanum og stappaðu sætu kartöfluna saman við.
 5. Hrærðu svo ½ dl af möndlumjöli saman við og bættu við eftir þörfum, þannig að þetta verði að þéttu, hálfblautu mauki.
 6. Smakkaðu og kryddaðu meira eftir smekk. Skiptu svo maukinu í fjóra parta, mótaðu þykk buff á stærð við hamborgarabrauð.
 7. Blandaðu saman í skál 1 tsk af möndlumjöli, lauk- og hvítlauksdufti.og stráðu yfir báðar hliðar buffsins.
 8. Bakaðu svo í ofni við 180 gráður í 10-12 mínútur á hvorri hlið, eða steiktu á pönnu.
 9. Ristaðu brauðbollu og raðaðu á hana ferskum tómatsneiðum, söxuðum rauðlauk, sólþurrkuðum tómötum og avocado ásamt baunaborgaranum.
 10. Helltu svo ríflega af tahini sósunni yfir og lokaðu borgaranum

Ath – það má frysta afgangs baunaborgara. Byrjaðu á að „lausfrysta“ þá, þ.e. settu þá í frystinn, t.d. í formi þar sem þeir snertast ekki og settu þá saman í poka eða box þegar þeir eru frosnir í gegn. Það auðveldar þér að ná þeim í sundur. Þegar kemur að því að elda þá er best að leyfa þeim að þiðna áður en þeir eru matreiddir