Bók: Eating Animals

Bók: Eating Animals

Þessi bók er merkileg fyrir þær sakir að þó hún fjalli opinskátt um framleiðslu á dýrum og neyslu á dýraafurðum er hún ekki á nokkurn hátt ætluð sem áróðursmaskína fyrir grænmetishyggju. Hún er skrifuð á afar einlægan og opinskáan hátt af manni sem um langa hríð sveiflaðist á milli þess að vera grænmetisæta og kjötæta, með misgóða samvisku en margar vangaveltur og spurningar sem hann átti ekki svör við.

Þegar hann stóð frammi fyrir því að stofna fjölskyldu og eiga von á barni ákvað hann að komast að því í eitt skipti fyrir öll hvaða leið væri sú rétta fyrir hann og hvers konar mataræði hann gæti helst hugsað sér að ala barnið upp á. Í kjölfarið fór hann í meiriháttar rannsóknir og skoðun á iðnaðinum og lýsir bæði staðreyndum og eigin tilfinningum í gegnum allt ferlið. Hann aflar upplýsinga úr öllum áttum, frá fyrrverandi starfsmönnum sláturhúsa, frá bændum og framleiðendum, stofnunum og samtökum.

Á sama tíma stendur hann frammi fyrir erfiðri klípu gagnvart eigin uppruna þegar hann hugsar um það hvernig hann ólst upp við ást og alúð ömmu sinnar sem tjáði þær tilfinningar í gegnum mat eftir að hafa sjálf liðið skort í stríðinu. Þegar ég hlustaði á þessa bók upplifði ég sterkt með höfundinum hvernig hann barðist við að varðveita þessar dýrmætu minningar á sama tíma og hann horfðist í augu við hinn enda aðfangakeðjunnar. Frá dýri að máltíð og allt það sem gerist í millitíðinni.

Bókin er æsispennandi á köflum því hann slæst m.a. í svaðilför með aktívista sem brýtur sér leið inn í verksmiðjur til að bjarga dýrum, eyðir tíma með bændum sem leggja sig fram um að rækta dýr á gamla mátann, heimsækir verksmiðjubú og fylgist með slátrun. Það er sannarlega ótrúlegt hversu mikil yfirvegun einkennir frásagnir hans og hve langt hann er tilbúinn að ganga til að komast að kjarna málsins og horfast í augu við sannleikann.

Þrátt fyrir að ég hafi lengi verið grænmetisæta var margt í bókinni sem ég vissi ekki eða hafði ekki leitt hugann að, auk þess sem margar vangaveltur hans víkkuðu sjónarhorn mitt á þennan heim í heild sinni. Ég er ævinlega þakklát fyrir að hafa hlustað frá upphafi til enda þó það hafi á köflum reynt á. Sérstaklega tók á þegar hann lýsti frásögnum fyrrum sláturhúsastarfsmanna og sumt af því sem þar kom fram lýsir einskærri illsku og grimmd, nokkuð sem fékk tárin til að streyma.

Þetta er ein af þeim bókum sem aldrei gleymist. Hún jók ábyrgðartilfinningu mína sem neytanda og styrkti mig enn frekar í afstöðu minni. Langstærstur hluti hennar er nokkuð átakalaus fyrir lesandann, allavega mig sem vissi að miklu leyti hvers var að vænta, en undir lokin kemur áðurnefnd lýsing af grimmdarlegri hegðun böðlanna sem verður ævinlega föst í minningunni. Ég vona þó að sem flestir lesi bókina, einfaldlega til að geta tekið upplýsta ákvörðun um neyslu sína, hver sem niðurstaðan verður.