Bakað grænmeti með pestóbaunum

Bakað grænmeti með pestóbaunum

Einfalt, ódýrt, hollt og ljúffengt. Ég bið ekki um meira í einni máltíð!

Þessi réttur er alveg tilvalinn þá daga sem mikið er að gera eða ísskápurinn alveg að tæmast. Það skiptir ekki öllu máli hvaða grænmeti er notað en það er gott að hafa allavega eina tegund af rótargrænmeti og mér finnst laukur alltaf gera mikið. Svo er bara upplagt að nýta allt sem er á síðasta snúning, skera í krúttlega bita og henda í ofninn.

Ég mæli með pestóinu frá Himneskt (Sollu) vegna þess að það er bæði lífrænt og vegan en líka alveg virkilega bragðgott. Þeir sem eru vegan eða forðast neyslu mjólkurvara af öðrum ástæðum þurfa að varast flest pestó þar sem það inniheldur oftar en ekki ost. Þessi pestótegund er því algjör himnasending fyrir okkur sem kunnum að meta slíkt gúrmeti og er virkilega þægilegt að geta gripið í tilbúna krukku þegar ekki gefst tími til að búa til sitt eigið. Ef þú hefur ekkert á móti osti þá mæli ég samt með að þú smakkir þessa dásemd, það mun alveg áreiðanlega koma þér á óvart!

Hráefni

  • 400 gr blandað grænmeti (t.d. brokkolí, paprika, rauðlaukur og baby maís)
  • 1 dós smjörbaunir
  • 6-8 msk rautt pestó frá Himneskt
  • Nokkrar avokadósneiðar

Leiðbeiningar

  1. Skerðu grænmetið í bita og bakaðu við 180 gráður í 15-20 mínútur.
  2. Fylgstu vel með og hrærðu í grænmetisblöndunni af og til.
  3. Hitaðu baunirnar örlítið saman við pestóið og stappaðu því svo gróflega saman.
  4. Skammtaðu grænmetið á diska, settu pestóbaunir yfir ásamt ferskum avókadósneiðum.

Njóttu þess að borða í rólegheitunum eftir lágmarks fyrirhöfn í eldhúsinu!