Sítrónupressan handhæga

Sítrónupressan handhæga

Ferskur sítrónu- eða limesafi er algengt hráefni í bæði mínar uppskriftir og aðrar í hollari kantinum. Ég sker þá í sundur ávöxtinn og kreisti úr honum það magn sem ég þarf í hvert sinn. Hinn helminginn geymi ég svo í plastboxi í ísskáp þar til mig vantar næst ferskan safa.

Lengi vel kreisti ég safann úr með berum höndum með ágætis árangri. Gallinn var sá að steinar detta þá oft úr ávextinum og ofan í matinn auk þess sem erfitt er að ná öllum safanum úr með þessari aðferð. Hægt er að nota gamaldags sítrónupressu þar sem hálfu sítrónunni er snúið ofan á þar til gerðum kúpum (Skrítið orð, ég veit. Fann það á ikea.is!). Það tól finnst mér hins vegar óþarflega fyrirferðarmikið og aðgerðin sóðaleg svo ég hef ekki notað slíkt.

Mér til mikillar gleði rakst ég svo á klemmupressu fyrir sítrónur á ferðalagi í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum síðan. Það var sem himnarnir opnuðust og líf mitt tæki nýja stefnu, ég keypti mér ekki bara eina heldur tvær! Eina fyrir sítrónur og hina fyrir lime. Það er skemmst frá því að segja að þessi græja er hið mesta þarfaþing. Hún pressar hvern dropa úr ávextinum og tekur bara örskamma stund að þrífa hana. Ef mig vantar bara lítið af safa pressa ég laust og geymi svo hálfkreistan sítrónuhelminginn til seinni tíma og þannig nýti ég líka ávöxtinn betur. Steinarnir sitja eftir og það er þægilegt að pressa safann beint út í þann rétt sem ég er að gera í hvert sinn. Svo má smakka til og kreista smáræði í einu þar til þetta er allt saman orðið passlegt.

Ég veit ekki betur en að sítrónupressur fáist nánast í hvaða búsáhaldaverslun sem er og jafnvel í búsáhaldadeildum stórmarkaða líka.