Bók: Heilsuréttir Hagkaups

Bók: Heilsuréttir Hagkaups

Ef til vill er það ekki mjög snobbað að fyrsta uppskriftabókar-rýnin sé um eina af mörgum útgáfum stórmarkaðar en ég kæri mig kollótta. Þessi gullmoli er nefnilega sú uppskriftabók sem ég hef notað mest síðustu árin og mér finnst að hún ætti í raun að vera skyldueign á hverju heimili.

Höfundur bókarinnar, Solla Eiríks, er jú einfaldlega himnasending fyrir þróun matargerðar á Íslandi og án hennar er ég hrædd um að heilsu- og lífræna byltingin væri mun skemur á veg komin en hún er í dag. Fyrri Hagkaupsbók Sollu, Grænn Kostur Hagkaupa reyndist mér algjör bjargvættur á þeim tíma sem ég var að feta mín fyrstu spor í grænkeramatagerðinni og aðgengi að uppskriftum og almennum fróðleik var ekki nálægt því sem það er í dag. Þó sú bók sé komin til ára sinna þá er í henni ýmiss konar klassík og ofnotaða, hrörlega eintakið mitt á enn sinn stað í uppskriftabókahillunni.

En aftur að bók bókanna. Heilsuréttir Hagkaups er bókin sem þú vilt kaupa ef þú ætlar bara að eiga eina uppskriftabók. Hún er líka fyrsta bókin sem ég gramsa í þegar mig langar að prófa eitthvað nýtt eða á von á fólki í mat.

Fremst í bókinni er stuttur en gagnlegur kafli sem auðvelt er að láta fram hjá sér fara. Í honum er að finna afar hnitmiðaðan fróðleik um framandi hráefni og leiðbeiningar um matreiðslu helstu korntegundanna. Fyrir þá metnaðarfullu eru leiðbeiningar um sýringu og spírun sem gaman er að kunna!

Ég hef prófað fjölda uppskrifta úr bókinni en þessar eru algjört uppáhald á mínu heimili:

 

  • Grænmetissúpan góða, bls 131. Bókin opnast sjálfkrafa á þessum stað því þetta er lang vinsælasta súpan hjá allri fjölskyldunni. Ég hef líka boðið upp á hana í matarboðum og meira að segja fyrir tugi svangra gesta í fermingarveislu og hún sló alveg rækilega í gegn. Hún er ekki bæði ljúffeng og holl heldur er hún frábær valkostur í stað skólastjórasúpu fyrir þá sem vilja vegan mat eða einfaldlega betri næringu.

 

  • Gróft Glóbrauð, bls 207. Þetta er ómissandi með grænmetissúpunni góðu og smellpassar að hnoða í þetta áður en súpugerðin hefst því þá er allt tilbúið nokkurn veginn á sama tíma. Það er EKKERT mál að henda í þetta brauð, það tekur bókstaflega örfáar mínútur að afgreiða það mál og kókosinn gerir börnin alveg æst í það! Ég nota eingöngu gróft spelt í mitt brauð í stað blöndu af fínu og grófu eins og uppskriftin segir til um.

 

  • Pítsa, bls 134. Þessi krefst tíma og fyrirhafnar svo ég er eiginlega frekar farin að miða á þá daga sem hún fæst hjá Gló og njóta hennar þar, en það er rosalega gaman að koma gestum á óvart með svona bragðmikilli og nærandi hrápizzu. Líka skemmtilegt að hafa gert þetta a.m.k. einu sinni, sjálfstraustið í eldhúsinu hækkar alveg um nokkur stig!

 

  • Sólblómakæfa, bls 88. Þessi er algjör dásemd. Rosalega gott á brauð, hrökkbrauð eða bara með salati og ýmsum mat.

 

  • Sólþurrkað tómatpestó, bls 91. Þetta fer í sama flokk og sólblómakæfan. Ég mundi mæla með að búa til tvöfaldan skammt til að geyma í ísskápnum en þetta geymist bara ekki. Allir heimilismenn sem frétta af tilvist pestósins í ísskápnum sjá til þess að það klárist samdægurs!

 

  • Möndlu- og límónukaka, bls 203. Þessi kom mér mest á óvart af öllum uppskriftunum sem ég hef prófað. Sama er að segja um aðra sem hafa smakkað hjá mér. Ég hef bæði boðið upp á hana heima og einu sinni tók ég svona með mér í vinnuna á afmælisdaginn. Hörðustu aðdáendur hnallþóra og almennra lífsins lystisemda hafa langflestir verið sammála um hversu ljúffeng þessi er.

 

Svo ef þú átt Grænan Kost Hagkaupa þá mæli ég líka eindregið með að þú prófir bæði grænmetislasagna og dahl uppskriftirnar sem þar er að finna.