Maskarinn frá Pacifica

Maskarinn frá Pacifica

Fólk sem notar förðunarvörur veit hversu mikilvægt maskaravalið er. Í mínu tilfelli finnst mér maskarinn hreinlega skera úr um hvort förðunin sé vel eða illa heppnuð. Tveir þumlar eða fýlukall. Ekkert þar á milli. Áður fyrr notaði ég rándýra maskara frá flottustu merkjunum, lengst af var einhver rosaleg bomba frá Dior fastagestur í vopnabúrinu og ég þurfti nánast að beita handafli til að blikka augunum, þvílíkt varð umfangið á augnhárunum. Svo eftir því sem mataræðið tók náttúrulegri stefnu fór ég að spá meira í því sem ég var að smyrja á mig og þá var allt Dior góssið með því fyrsta sem fékk að fjúka.

Það skal viðurkennast að við tók dramatísk þrautarganga. Ég prófaði fjöldann allan af möskurum, fæsta þeirra góða og flestir voru nánast eins og að pensla gömlu málningarvatni á augnhárin. Ástandið var ekki hressandi! Á endanum datt ég niður á Dr Hauschka sem hafði tekist að setja saman þennan líka frábæra Volume maskara sem ég notaði lengi eða allt þar til ég áttaði mig á því að hann var ekki vegan. Doktorinn fór því sömu leið og Dior. Nú voru góð ráð dýr og við tók önnur leit sem gekk þá samt betur en í fyrra sinnið þar sem töluverð framþróun hafði orðið í maskarafræðum náttúrulegra framleiðanda en þetta var aldrei alveg nógu gott.

Ég gat loks tekið gleði mína á ný þegar Gló opnaði verslun í Fákafeni og hóf innflutning á 100% vegan snyrtivörum frá Pacifica. Eitthvað sem ég hafði aldrei heyrt um áður en eftir að hafa séð jákvæðar umsagnir á íslenskum vegan hópum ákvað ég að prófa þennan maskara. Ég var ógurlega spennt og flýtti mér heim með gripinn til að prófa, reif hann upp, þreif af mér þann gamla og hófst strax handa. Svekkelsið var stórt þegar ég horfði í spegilinn og sá ræfilslega lituð augnhár alveg ópumpuð af umfangi. Ákvað samt að halda áfram að nota hann fyrst ég væri nú búin að kaupa hann – sem betur fer! Eftir tvö eða þrjú skipti fattaði ég galdurinn. Þetta er maskari sem er endalaust hægt að byggja upp. Ég þurfti bara að fara fleiri umferðir og jafnvel þó það hljómi leiðigjarnt þá er það samt svo stórkostlega fullkomið því hver vill vera með þriggja kílóa blævængi í andlitinu þegar maður skýst í bakaríið á sunnudagsmorgni? Núna stjórna ég þykkt og dramatík alveg fullkomlega og gæti ekki verið ánægðari.

Samanborið við Dior er Pacifica mun hógværari en á sama tíma bæði mildari, náttúrulegri og síðast en ekki síst er ekkert verið að púkka upp á þjáningu dýra í framleiðsluferlinu. Reyndar sé ég ekki fyrir mér að ég væri enn að nota Dior hvort sem er þar sem viðkvæm augu mín voru aðeins farin að mótmæla þeim efnakokteil og svo er smekkur minn á andlitsfarða örlítið hógværari í dag. Það skemmir ekki fyrir að Pacifica var svona u.þ.b. helmingi ódýrari síðast þegar ég vissi.