Taramar húðvörur

Taramar húðvörur

Þessi fallega húðlína vakti ekki sérstakan áhuga hjá mér þegar ég sá hana fyrst en ég fór ekki að kynna mér málið fyrr en ég var svo heppin að fá allar vörurnar gefins. Eftir að hafa horft á þær í nokkra daga ákvað ég að byrja allavega á því að ganga úr skugga um að þær uppfylltu mínar sérþarfir og kröfur áður en lengra væri haldið. Ég dustaði rykið af snyrtifræðingnum í mér sem annars er að öllu jöfnu kyrfilega geymdur í fortíðinni og las allt það sem ég komst yfir um innihaldið og vinnsluna.

Við þurfum ekkert að orðlengja það neitt sérstaklega en ég varð afskaplega hrifin af uppruna og innihaldi en ekki síður gildum framleiðandans sem falla umhverfisverndarsinnanum í mér afskaplega vel í geð. Þrátt fyrir nútímalegar og stíliseraðar umbúðir og vísindalega nálgun er það þrátt fyrir allt frekar „hippaleg“ hugsjón sem býr þarna að baki. En orð á blaði duga ekki til og eftir að hafa fengið það staðfest að vörurnar væru allar 100%  vegan fórnaði ég mér í að nota línuna kvölds og morgna til að komast að því hvort varan sjálf kæmist nálægt því að uppfylla nýskapaðar væntingar mínar til hennar.

Ég er búin að nota dagkremið á morgnana og á kvöldin hreinsa ég andlitið með olíunni áður en ég ber á húðina serumið og næturkremið. Þrátt fyrir snyrtifræðilegan uppruna minn er ég engan vegin óskeikul í rútínunni svo það hafa alveg dottið út dagar og morgnar í þessari annars ljúfu rútínu. Áður en lengra er haldið er líka rétt að ég útskýri að ég er með nokkuð vandræðalausa húð að því undanskildu að hún er óþolandi viðkvæm fyrir ótrúlegustu hlutum. Það er fátt um bólur og önnur leiðindi, hún verður aldrei fitug en hefur smá tilhneigingu til rakaþurrks. Þar sem ég er komin á seinni helming fertugsaldursins er hún líka aðeins farin að missa teygjanleikann. Snúum okkur þá að máli málanna:

  • Dagkremið: Ég var pínu hissa þegar ég pumpaði fyrst úr flöskunni og komst í fyrstu snertingu við kremið. Það var þynnra en ég átti von á en ég var ánægð með það hversu mild og ljúf lyktin var. Flest dýr krem sem ég hef handleikið hafa lyktað mun meira, næstum því eins og það þurfi einhvern veginn að réttlæta verðmiðann fyrir þefskyninu. Fyrir mig hefur hentað best að taka léttan vatnsþvott á morgnana með þvottapoka og bera kremið á raka húðina. Þannig dreifist það best og ég næ að bera það á hálsinn líka (mjög mikilvægt). Eftir það er nóg að bíða í 2-3 mínútur áður en ég fer í farðann og þetta er prýðilegur grunnur fyrir slíkan gjörning.

 

  • Hreinsiolían: Það var skrítin tilhugsun að fara að nota nokkra dropa af olíu til að hreinsa af allan farða og óhreinindin sem húðin safnar á sig yfir daginn og ég þurfti alveg nokkur skipti áður en ég vandist því. Venjulega hef ég viljað maka einhverju hreinsikremi á og nudda það af með hamagangi og látum svo ég þurfti virkilega að skipta um gír. Nú er ég ekki bara búin að venjast þessu heldur er þetta besta hreinsiaðferð sem ég hef prófað og svo ég minni nú á snyrtifræðigráðuna mína aftur þá get ég staðfest að ég hef prófað þær ansi margar!
    Ein pumpa af olíu er feykinóg á allt andlitið. Ég byrja á að hafa tilbúinn heitan þvottapoka og tvær blautar bómullarskífur áður en ég set olíuna í lófann. Svo nudda ég saman höndum og dreg olíuna fyrst yfir augnlokin og aunhárin áður en ég nudda yfir allt andlitið. Svo þurrka ég létt yfir með þvottapokanum og klára að hreinsa af augnhárunum með bómull. Allur farði hverfur eins og dögg fyrir sólu og það hefur aldrei verið minni fyrirhöfn að hreinsa af augunum. Lyktin af þessari olíu er líka eitthvað töfrandi, hún bæði hressir og róar á sama tíma! Þetta er uppáhalds varan mín í línunni og sú sem ég mundi kaupa ef ég ætlaði bara að fá mér eina.

 

  • Serumið: Þessi þunnfljótandi vökvi inniheldur hærra hlutfall af virkum efnum en kremin, rétt eins og aðrar tegundir andlitsserums. Það er notað til að auka áhrif línunnar og má hvort sem er nota það kvölds eða morgna, eða bæði ef því er að skipta. Þetta er líka sniðugt að nota í kúrum og taka hlé á milli, allt eftir því hvað hentar. Eins og ég nefndi hér að ofan nota ég það á kvöldin því húðin hefur meiri frið fyrir umhverfisáreiti yfir nóttina og það er enginn farði, hitabreytingar, mengun eða annað að trufla virknina.

 

  • Næturkremið: Ég skelli kreminu bara yfir serumið eftir 1-2 mínútur, þegar það hefur gengið inn í húðina. Þetta er svolítið sérstakt krem og hefur þau áhrif allavega á mína húð að hún strekkist örlítið eins og hún sé að þorna en sú er alls ekki raunin, það er bara tilfinning. Lyktin er líka óvenjuleg, hún er mjög dauf en óútskýranleg. Hvorki vond né góð en gufar hratt upp svo það er kannski ekkert sem þarf að pæla í.

 

Eftir u.þ.b. vikunotkun á allri línunni fannst mér húðin vera orðin þéttari og rakafylltari. Til að gæta sannmælis vil ég þó aftur taka fram að ég er ekki sérstaklega föst í neinni rútínu og hluti af árangrinum gæti skýrst af regluseminni einni og sér. Við áframhaldandi notkun hef ég tekið eftir því að það eru smávægilegar en stöðugar umbætur á húðinni sem ég hef ekki séð eins afgerandi með öðrum kremum. Kannski er það líka vegna þess að ég hef aldrei getað notað neinar almennilega virkar húðvörur því viðkvæmnin blossar upp og allt fer í uppreisn. Mér fannst það raunar einn stærsti kosturinn, að geta loksins notað vörur sem hæfa húð sem er að byrja að eldast. Ég finn sannarlega virkni af vörunum eftir að hafa borið þær á, það er ákveðin tilfinning í húðinni án þess að upp komi erting, roði, kláði eða sviði eins og ég hef áður lent í.

Ókosturinn er sá að vörurnar eru frekar dýrar en ég ætla að halda áfram að nota þær samt sem áður. Mér finnst það þess virði að styrkja fyrirtæki með ábyrga stefnu í umhverfismálum, gæði hráefnanna er einstök og virkni varanna hentar minni húðgerð vel. Fyrir þau sem langar að prófa en vilja ekki fjárfesta í fjórum fullvöxnum pakkningum er hægt að fá alla línuna í minni glösum.