Lavera farðinn

Lavera farðinn

Ég nota léttan farða á hverjum degi og það skiptir mig miklu máli að vörurnar sem ég nota styðji heilbrigði húðarinnar en vinni ekki gegn því. Á sama tíma vil ég ná fram sem náttúrulegustu útliti. Markmiðið er ekki að vera sýnilega mikið máluð heldur að jafna húðlitinn og lokka fram einhvern ferskleika hvort sem það er innistæða fyrir honum eða ekki!

Á unglingsárunum snerist allt um að maka á sig þykku lagi af meiki og fela hvern fermillimetra af andlitinu en smám saman hef ég skipt algjörlega um skoðun. Jafnvel í dag vil ég ekki farða sem þekur of mikið því mér finnst ég of gervileg dags daglega ef húðin er of slétt og einsleit. Það er bara við hátíðleg tilefni sem ég gríp til kvöldförðunar og meira hyljandi ráða.

Líkt og með maskarann var ég alveg gift Dior andlitsfarða sem hafði þann eiginleika að byggjast endalaust upp. Ég gat sett einfalda umferð á allt andlitið og haldið svo áfram að bæta ofan á valin svæði til að hylja þau betur. Áferðin var nokkuð náttúruleg og ég var hæstánægð með útkomuna allt þar til ég kom að þeim tímamótum í lífi mínu sem ég lýsi í áðurnefndum maskarapistli. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég var hálf fegin þegar ég hafði ekki lengur samvisku í Dior meikið því það fékkst í agnarsmáum túpum sem kostuðu meira en ég kæri mig um að rifja upp.

Ég prófaði Body Shop farða og þó hann hafi verið ágætur þá var ég einhvern veginn ekki sannfærð um þau einlægni þeirra göfugu gilda sem sú keðja státar sig af. Næst keypti ég Benecos fljótandi farða og þó ég hafi verið hrifin af framleiðandanum þá fannst mér varan alls ekki nógu góð. Allt of þunnfljótandi, illa þekjandi og þornaði hraðar en ég náði að bera hann á. Loks datt ég niður á fljótandi farðann frá Lavera.

Lavera farðinn uppfyllir öll mín ströngustu skilyrði. Hann er lífrænn, vegan og inniheldur náttúruleg gæðahráefni sem valda húðinni ekki skaða. Síðast en ekki síst er hann endingargóður, þægilegur í notkun og lítur vel út á húðinni. Þegar ég mála mig á hversdagslegum morgni er ég ekkert að hafa mikið fyrir því, ég nota bara eina pumpu af farðanum og dreifi yfir allt andlitið með lófum og fingrum. Þennan farða set ég á augnlokin og alveg upp að augunum úr öllum áttum og hef gert það án nokkurra vandamála í 2-3 ár. Venjulega bregðast mín viðkvæmu augu illa við slíkri meðferð en þetta þola þau vel. Stundum læt ég farðann þorna á húðinni í nokkrar mínútur og bæti við nokkrum dropum á kinnbeinin þar sem ég er með háræðaslit og undir augun ef mér finnst ég þurfa smá meiri þekju þar en stundum gríp ég í hyljara í sama tilgangi. Báðar aðferðir virka vel.

Þegar næsta flaska af Lavera klárast er ég að hugsa um að hætta mér út í förðunarfrumskóginn aftur og kanna stöðuna á nýjum vörum á markaðnum svo bíðið spennt eftir framhaldssögu!