Bók: The Pleasure Trap

Bók: The Pleasure Trap

Það er merkilegt að staldra við og horfa gagnrýnið á þær matvörur, ja…eða þær „matleysur“ sem við sækjumst hvað mest í nú til dags. Nær allur maturinn sem við erum sólgin í og neytum daglega núna er splunkuný uppfinning sem fólk fyrir örfáum kynslóðum síðan hafði ekki einu sinni hugmyndaflug í að ímynda sér.

Það er auðvitað mikið búið að skrifa um þessa breytingu og afleiðingar hennar, sitt sýnist hverjum og mismunandi höfundar kenna ólíkum orsakavöldum um ólíka kvilla og sjúkdóma. Sumir telja sykur vera rót alls ills, aðrir tengja erfðabreytingu matvæla við alvarlega sjúkdóma á meðan enn aðrir deila um rétt hlutföll fitu og próteins. Allir horfa á sömu þróun og skiptast svo í mismunandi fylkingar um orsakir og afleiðingar.

Í bókinni The Pleasure Trap er ekki mikið verið að velta sér upp úr slíkum rökræðum heldur er útskýrt á einstaklega fræðandi og skiljanlegan hátt hvað það er í eðli okkar og sjálfsbjargarviðleitni sem gerir okkur að auðveldum skotmörkum fyrir gróðasækin fyrirtæki sem beita vísindum og verkfræði til að koma okkur á bragðið og gera okkur að háðum neytendum framleiddrar og mikið unninnar matvöru. Aðstæður nútímans eru bornar saman við þann raunveruleika sem forfeður okkar bjuggu við þegar mannkynið þróaðist kynslóð fram af kynslóð uns umhverfið breyttist svo hratt að líkamar okkar í dag eru eins og áttavilltir tímaferðalangar í afar framandi aðstæðum.

Lestur bókarinnar jók skilning minn verulega og nú átta ég mig betur á því hvað veldur löngun í hverskyns óhollustu. Frábær blanda af sálfræðilegum pælingum og hvata til að bæta matarvenjum til hins betra. Dr. Douglas Lisle er líka einstaklega skemmtilegur maður sem á auðvelt með að fanga athygli lesenda og áhorfenda svo það er mikill kostur að myndband af fyrirlestrum hans skuli vera að finna á netinu. Hér fyrir neðan má sjá bæði stutta og langa útgáfu af öllu því sem skiptir mestu máli. Mér þykir reyndar leitt að sjá að formerkin á fyrirlestrinum séu tengd holdafari en boðskapurinn er jafn mikilvægur samt sem áður, hvað varðar heilsusamlegar neysluvenjur. Ég legg til að þú gefir þér tíma í þann lengri, þú verður ekki fyrir vonbrigðum!