Fylltur kúrbítur með valhnetuhakki og kasjúosti

Fylltur kúrbítur með valhnetuhakki og kasjúosti

Það er eitthvað lystaukandi við fallegan mat og það er bara svo ótrúlega gleðjandi að bera fram fyllt, bakað grænmeti. Þegar ég var að setja saman próteinríka matarplan Hugmynda að hollustu langaði mig að hafa einn kvöldverðinn svolítið sparilega útlítandi en einfaldan í framkvæmd og þá blasti við mér þessi fallegi kúrbítur sem ég hafði keypt til að nota í smoothie. Ég gerði þessa samsetningu og hún er jafn skemmtileg fyrir bragðlaukana og hún er fyrir augað.

Uppskriftin er fyrir einn mjög svangan eða tvo aðeins minna svanga með salati, grjónum eða öðru meðlæti.

Hráefni

Kúrbítsfylling:

 • 1 kúrbítur
 • 2 msk saxaðir sólþurrkaðir tómatar
 • 40 gr avókadó
 • ¼ tsk svartur pipar

Valhnetuhakk:

 • 1 dl valhnetur
 • 1 msk tamarisósa
 • ¼ tsk laukduft
 • Smá cayenne pipar

Kasjúostur:

 • 1 dl kasjúhnetur
 • ½ dl vatn
 • 2 msk næringarger
 • 1 tsk laukduft
 • 1 tsk hvítlauksduft
 • 1-2 msk limesafi
 • Salt

Leiðbeiningar

Kúrbíturinn:

 1. Skerðu kúrbítinn í tvennt eftir endilöngu og holaðu báða helmingana með skeið. Það getur auðveldað verkið að skera tvo skurði ofan í endilanga helmingana og nokkra þverskurði, þá kemst skeið auðveldlega í gegn.
 2. Skerðu svo aldinkjötið sem þú tókst upp úr í teninga og stappaðu saman við avókadó og sólþurrkaða tómata.
 3. Kryddaðu með piparnum og settu fyllinguna ofan í báða helmingana.

Valhnetuhakkið:

 1. Settu allt hráefnið í blandara eða matvinnsluvél og kveiktu nokkrum sinnum og slökktu til skiptis svo það blandist vel saman og verði að „hakki“.
 2. Passaðu að blanda ekki of mikið svo þetta verði ekki að mauki.
 3. Stráðu svo hakkinu yfir fyllta kúrbítinn.

Kasjúosturinn:

 1. Láttu kasjúhneturnar liggja í bleyti í 2-3 tíma ef þú hefur tök á.
 2. Helltu svo vatninu af og maukaðu allt saman í blandara eða matvinnsluvél. Bættu við vatni ef þörf er á, þetta á að vera eins og mjög þykk sósa.
 3. Helltu svo kasjúostinum yfir fyllta kúrbítinn og bakaðu við 160 gráður í 15-20 mínútur eða þar til kasjúosturinn er byrjaður að brúnast örlítið.