Hvítlaukstvisturinn

Hvítlaukstvisturinn

Ég nota hvítlauk mjög mikið í matargerð og hef um nokkurra ára skeið saxað hann með hnífi í hvert sinn. Eins og gefur að skilja er það hvorki fljótlegt né sérlega gefandi verkefni en ég þjáist af þeim leiðinda kvilla að hafa óbeit á hvítlaukspressum. Eins handhægar og þær eru þá skilja þær oft eftir sig klessta sneið af hvítlauk sem fer til spillis, það er leiðinlegt að þrífa þær og mér finnst áferðin á pressaða hvítlauknum eitthvað óspennandi.

Á heimsferðalögum mínum flýg ég iðulega með Icelandair og ég hafði í hvert sinn staldrað við mynd af fallegri græju í Saga Shop blaðinu. Þessi hugvitssama nýja hönnun úr glæru plasti var eitthvað spennandi og jafnvel þó verðið væri ekki hátt hætti ég við í hvert sinn því mér fannst eitthvað undarlegt við að kaupa eldhúsáhald í flugvél. Það jafnvel þótt farangur minn innihaldi oftar en ekki ógrynni af „eldhússtöffi“ á heimleiðinni. Ég er nefnilega konan sem verslar jafn mikið í búsáhaldabúðum erlendis og landar mínir eyða að meðaltali í H&M.

Nú, það kom að því að viljastyrkurinn bognaði nægilega til að ég fjárfesti í eintaki af hvítlaukstvistinum fyrr á þessu ári – Garlic Twister eins og hann kallast á frummálinu. Ég sá fyrir mér kosti handhægs áhalds án tímafrekra þrifa og ónothæfra hvítlaukssneiða. Svo náttúrulega verð ég að benda á þá augljósu staðreynd að þetta er frekar fallegur hlutur!

Okkur hvítlaukstvisti kemur ágætlega saman og hann er reglulegur gestur í eldamennsku minni. Ég er ánægð með afurðir hans, hvítlaukurinn er meira sundurkraminn en úr venjulegri hvítlaukspressu og ekki eins kornóttur. Þetta er aðeins tímafrekari athöfn þar sem það er ekki gott að setja meira en svona tvö til þrjú rif í einu og það er best að skera þau í 2-3 búta hvert áður en snúningurinn hefst. Eftir það tekur ekki meira en svona 10-20 sekúndur að snúa og kremja. Á þeim tímapunkti hefst svo hugarangrið. Ég hafði séð fyrir mér að pressaði hvítlaukurinn mundi hlýða þyngdaraflinu umsvifalaust og falla úr tvistinum um leið og honum væri snúið en svo er ekki. Það þarf að nota hníf eða annað áhald til að ýta við honum og hreinsa á milli „tannanna“. Að því loknu er hins vegar einfalt og handhægt að sveifla uppþvottabursta og hreinsa græjuna.

Í leiðbeiningum með tvistinum er bent á að hann henti einni prýðilega við að kremja engifer og chili. Ég hef prófað og ekki fallið fyrir þeim möguleika. Mér finnst það krefjast of mikilla krafta og tíma, auk þess sem safi lekur úr ef maður snýr tvistinum á hlið í hamaganginum, svo ég er enn að saxa þau hráefni með hnífi. Aðstoðarkokkurinn hann sonur minn hefur aftur á móti tvistað engifer með bæði góðum árangri og brosi á vör svo þetta er líklega spurning um persónulegar matarkreistihneigðir.

Niðurstaðan er sú að hvítlaukstvisturinn var bara prýðileg fjárfesting þó hann stæði ekki undir óraunhæfum væntingum mínum sem stóðust hvort sem er ekki lögmál eðlisfræðinnar. Ef eina markmiðið er að kremja hvítlauk með sem mestum þá er venjuleg pressa líklega betri en fyrir þá sem eru nokkrum sekúndum þolinmóðari mæli ég með tvistinum.

Hvítlaukstvisturinn fæst hjá Saga Shop um borð í Icelandair, í Hrím og á aha.is