Nýpressaður rauðrófusafi

Nýpressaður rauðrófusafi

Hefur þú prófað rauðrófusafa?

Mörgum finnast rauðrófur vondar og safinn eftir því en ég lofa því að eftir því sem oftar er smakkað, því betra verður bragðið. Þetta er áunninn smekkur en sannarlega þess virði. Ég kaupi mér reglulega stóra flösku af lífrænum rauðrófusafa og drekk hann ískaldan af bestu lyst. Það er eitthvað við hann sem gefur svo ótrúlega heilbrigða og góða orku og vellíðan, enda hefur hann reynst mælanlega áhrifaríkur í bættu súrefnisflæði í líkamanum. 

Þegar ég hef tíma til að dunda mér geri ég hins vegar minn eigin rauðrófusafa og hann slær sko allan flöskusafa út í ferskleika og bragðgæðum enda blanda ég hann með öðru góðgæti sem í sameiningu framkallar einhverja töfra. Ef þú hefur ekki enn lært að meta bragðið af rauðrófusafa er sniðugt að nota hann sem grunn í þeytinga ásamt einhverju sem mýkir bragðið, t.d. kókos- eða haframjólk. Það má líka bæta hreinum rauðrófusafa í ýmsa rétti eins og t.d. sætkartöflu pottrétti með kókosmjólk. Safinn getur bæði gefið matnum fallegan lit, þéttara bragð og auðvitað töluvert aukna næringu.

Svona er uppáhalds heimagerði rauðrófusafinn minn:

Hráefni

  • 1-2 rauðrófur
  • 1 gulrót
  • 1 sellerístilkur
  • 1 grænt epli
  • 2-3 cm engifer
  • 1 lime
  • 1 búnt steinselja

Leiðbeiningar

  1. Allt sett í gegnum safapressu, klakar settir út í og drukkið strax.

Ef þú vilt kynna þér safagerð nánar mæli ég með ítarlegum pistli mínum um það sport sem þú getur nálgast hér.

Það er enginn vafi á því í mínum huga að áhrif rauðrófusafa eru margfalt fjölþættari og heilsusamlegri en þegar hefur verið staðfest – svo skál í botn!

P.s. Algeng og saklaus aukaverkun er bleikur eða rauður litur í þvagi og hægðum. Láttu þér ekki bregða.